Categories
Fréttir

Þingið brugðist við með öflugum hætti

Deila grein

04/05/2016

Þingið brugðist við með öflugum hætti

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Undanfarna þingfundi höfum við rætt um skattaskjól og aflandsfélög. Ég vil segja það að sú umræða hefur verið afar gagnleg og uppbyggileg. Við höfum rætt um að meta umfang og áhrif af starfsemi slíkra félaga og úrræði og tillögur til úrbóta. Í gær ræddum við síðan róttækari tillögu sem snýr að því að beita ríki sem bjóða upp á slík skattaskjól viðskiptaþvingunum. Það er nú gjarnan með svona róttækari tillögur að þær draga fram ýtrustu sjónarmið, en markmiðin eru auðvitað þau sömu, að uppræta notkun aflandsfélaga og þá iðju að koma peningum í skjól undan sköttum. Nú er verið að vinna að samantekt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd af opnum fundum með skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, og draga fram tillögur að úrbótum sem komu fram á þeim fundum. Mér finnst mikilvægt að koma að þessu vegna þess að í öllu pólitísku umróti liðinna vikna og þeirri umfjöllun um Panama-lekann sem hefur svo sannarlega hrist upp í samfélagi okkar hefur þingið brugðist við með öflugum og faglegum hætti. Nú er það auðvitað verkefni að vinna úr þessari umræðu, gögnum og tillögum og samhæfa aðgerðir.
Þess vegna er mjög ánægjulegt að nú hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við og ákveðið að tillögu hæstv. fjármálaráðherra að skipa sérstakan starfshóp sem hefur það meginverkefni að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum og það í samvinnu við embætti skattyfirvalda.
Ég lít svo á að sú vinna og tillögur og umræða sem hefur átt sér stað í þinginu um þessi mál og þetta skref hæstv. ríkisstjórnar muni hraða raunverulegum úrbótum á vettvangi löggjafans.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 3. maí 2016.