Categories
Fréttir

Þingmannanefnd EFTA og EES kom saman

Deila grein

12/02/2022

Þingmannanefnd EFTA og EES kom saman

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og formaður þingmannanefndir EFTA og EES, átti í vikunni annríka en afar skemmtilega daga í Brussel. Þingmannanefndin fjallar um starfsemi EFTA, gerð fríverslunarsamninga, málefni EES og ESB og efnahags- og viðskiptamál almennt og hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA.

Á fundunum var farið var um víðan völl, rædd staða alþjóðaviðskipta og störf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Farið var yfir ýmsa þætti er varða viðskiptastefnu ESB. Eins fékk nefndin fræðslu um fríverslunarnet EFTA og framhaldið í næstu samningum og verkefnin sem framundan eru.

Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA. Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa utan við EES varð þingmannanefnd EFTA að formi til tvískipt, með gildistöku EES-samningsins, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, með aðildarríkjunum fjórum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES.

Nefndirnar halda hins vegar ávallt fundi saman og því sitja Svisslendingar sem áheyrnarfulltrúar þegar rædd eru málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES.