Categories
Fréttir

Þingvallafundurinn 1919

Deila grein

26/06/2019

Þingvallafundurinn 1919

Fyrsta Flokksþing Framsóknarmanna var haldið fyrir 100 árum, var það sett þann 25. júní 1919 við Öxará.
Miðstjórn Framsóknarflokksins hafði fyrr um veturinn það ár samþykkt að efna til landsfundar á Þingvöllum, m.a. til að setja flokknum stefnuskrá er flokksmenn alls staðar af landinu kæmu að. Undirtektir voru umfram væntingar forystu flokksins og sóttu þetta þing um 100 fulltrúar úr flestum héruðum landsins. Um leið var þingið það fjölmennasta sem nokkur annar flokkur hafði haldið.
Jónas Jónsson frá Hriflu setti fundinn, lýsti hann tildrögum hans og verkefnum og gekkst fyrir kosningu fundarstjóra. Ólafur Briem var kosinn fundarstjóri, en til vara Sigurður Bjarklind kaupfélagsstjóri á Húsavík og sér Jakob Lárusson í Holti. Þingið á Þingvöllum stóð yfir í alls fjóra daga.
Á lokadegi þingsins voru fluttar tillögur um stefnu flokksins í öllum málum er málefnanefndir höfðu fjallað um. Þær voru í samræmi við stefnuskrá þingflokksins frá 1916 og Tímans frá 1918, en þó ýtarlegri og fleiri málaflokkar.
Sigurður Norðdal og Valtýr Stefánsson fluttu sérstök erindi á þinginu. Sigurður flutti erindi um menningarmál og Valtýr um framtíð landbúnaðarins.

Um Þingvallafundinn segir í Tímanum 2. júlí 1919:

„Það er ekki ýkja langt síðan að einn hinn tillögubesti maður í sjálfstæðisbaráttu þessa lands, Guðmundur prófessor Hannesson, taldi það gott til fróðleiks að sækja fund íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn; það væri að skygnast inn í framtíð Íslands.
Nú er þessi leið lokuð, og ekki fyrir það eitt að við eigum okkar eiginn háskóla. Svo eru nú tímarnir breyttir og breyttir til batnaðar. Það er segin saga, að því betri muni framtíðin, sem fleiri góðir menn leggjast á þá sveifina að hafa fyrirhyggju um að sjá framtíðarhag þjóðarinnar sem best borgið.
Það var sú tíð að allra frétta um framtíð Íslands varð að leita til Danmerkur — og það til danskra manna þar. Smám saman fóru svo íslenskir menn að slægjast eftir hlutdeild um þessi mál, og skiljanlega voru það einkum menntamennirnir. Þeim hefir með vaxandi viðreisnarhug þjóðarinnar á löngum tíma tekist að flytja völdin heim, og heima hafa þau undanfarið haft aðalaðsetur sitt í Reykjavík, enda var það ofur eðlilegt, meðan einkum var fengist um formshliðar sambandsfyrirkomulagsins við Dani. En nú eru völdin enn að flytja sig um set. Þau eru að komast í hendur hugsandi borgara hvar sem eru í landinu.
Ein sönnun þessa er fundur sá sem nýafstaðinn er á Þingvöllum; margir menn og úr öllum héruðum landsins koma þar saman til þess að leggja ráð á um það hvað við eigi að taka í öllum helstu málum landsins á næstu árunum; þeim er þelta enginn leikur, ekki er svo hægt um samgöngurnar; fundurinn er sprottinn upp af þörf þjóðarinnar um að láta málin til sín taka, og fundarhaldið styðst við það að nú séu völdin í raun og sannleika komin þangað sem þau eiga að vera, í hendur borgaranna sjálfra í landinu. Og sú trú er á fylstu rökum byggð. Síðasti áfanginn var farinn þegar sambandsdeilunni með forms- og lögskýringa-togstreitunni lauk. Þá lók við fyrirhyggjan um innanlandsmálin, og þar standa menn fastar í fæturna.
Og þessi fundur er ekki aðeins að því leyti eftirtektaverður, að hann skyldi hafa átt sér stað, heldur miklu fremur fyrir það hvernig hann fór úr hendi. Þarna voru menn af öllum stéttum, að undanskildum lögfræðingum, og þessir menn koma sér saman um aðalstefnuatriði í öllum stærstu dagskrármálum þjóðarinnar.
En það sem ef til vill er stærst og mest um vert, er hugblærinn, hrifningin sem þarna ríkti; að henni búa menn lengst og hún mun reynast öllum örðugleikum hættulegust sem kunna að verða á vegi sameiginlegu áhugamálanna sem þarna voru borin fyrir brjósti.
Enda mun það svo, að ýmsir þeir, og það ekki síst eldri og reyndari mennirnir, munu telja sig hafa skygnst inn í framtíð Íslands einmitt á þessum fundi.“

***

Frétt Tímans frá 5. júlí 1919 um samþykkt stefnumála Framsóknarmanna á sínu fyrsta þingi: