Categories
Fréttir

Notkun hjálma hjá reiðhjólafólki eykur hættu á reiðhjólaslysum

Deila grein

27/06/2019

Notkun hjálma hjá reiðhjólafólki eykur hættu á reiðhjólaslysum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu í dag að málflutningur Óðins Sigþórssonar, sem sat í starfshópi sjávarútvegsráðherra um stefnumörkun í fiskeldi, verulega villandi og hafi að geyma sérstaka nálgun. Óðinn fullyrðir við Morgunblaðið í vikunni að það geti stefnt í átök vegna nýrra fiskeldislaga því ekkert samráð hafi verið haft við þá sem vilja vernda villtu laxastofnana og ákvæði um áhættumat erfðablöndunar hafi verið veikt frá drögum að nýjum ákvæðum í lögum um fiskeldi.
Halla Signý segir, að „þær mótvægisaðgerðir sem settar voru inn í lögin eru einmitt til varnar villta laxinum og eru viðurkenndar af vísindamönnum og nýttar sem slíkar við fiskeldi í Noregi. Fyrst skal nefna mótvægisaðgerðir til að varna því að eldislaxinn sleppi úr kvíum og þar má nefna notkun stærri seiða, minni möskva og notkun ljósastýringar. Svo eru mótvægisaðgerðir sem skal beita ef að slysasleppingar verða en það er vöktun í ám og heimild Fiskistofu til að fjarlægja eldislax úr nærliggjandi ám ef heimild landeiganda liggur fyrir.“
„Fullyrðingar Óttars eru eins og að halda því fram að notkun hjálma hjá reiðhjólafólki auki hættu á reiðhjólaslysum,“ segir Halla Signý.
Eins heldur Óttar Sigþórsson því fram að Alþingi sé að úthluta gríðarlegum verðmætum til einstakra fyrirtækja með nýjum ákvæðum í lögum, en með afturvirkum hætti sé gripið inn í rekstur fyrirtækja er hafi verið búin að helga sér svæði með matsáætlunum á grundvelli eldri laga sem séu í sjálfu sér fólgin gríðarleg verðmæti.
Fullyrðingar Óttars segir Halla Signý um verðmæti eldisleyfa vera villandi. „Vissulega, þegar eldisfyrirtækin eru komin í fullan rekstur aukast virði fyrirtækisins í heild sinni líkt og með annan rekstur. En eldisfyrirtækin geta ekki selt leyfin frá sér að hluta eða að öllu leiti líkt og er með aflaheimildir í sjávarútvegi. Því þurfa eldisfyrirtækin að vinna sjálf að vermæti „lottóvinningsins“ með því að byggja upp sína starfsemi með umhverfislegum hætti. Þannig auka þau verðmæti þeirrar framleiðslu sem vinna skal að enda er eldisfiskurinn mjög viðkvæm markaðsvara,“ segir Halla Signý.
„Gjaldtaka í fiskeldi samkvæmt nýjum lögum er að færeyskri fyrirmynd. Það er bratt að svo ung atvinnugrein sem fiskeldi er hér á landi skuli gjaldsett líkt og verið er að gera. En hugsunin er að skapa sterkan ramma um þessa framleiðslu í sátt við nærsamfélög, umhverfið og þjóðarbúið allt,“ segir Halla Signý.
„Nú fyrst liggur fyrir rammi sem hægt er að vinna eftir sem tryggir sjálfbæra uppbyggingu fiskeldis til hagsbóta fyrir samfélögin og í sátt við náttúruna.“