Categories
Fréttir

„Þoli illa að sitja hjá“

Deila grein

09/08/2019

„Þoli illa að sitja hjá“

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir stórfelld uppkaup á jörðum er safnist í hendur fárra eignamanna og falli í flestum tilfellum úr hefðbundnum búskap ógna byggðum landsins, atvinnuuppbyggingu og sjálfstæði þjóðar. Þetta kemur fram í grein hennar í vikunni, „Uppkaup á landi“.
„Síðastliðna daga hef ég sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fengið upphringingar frá blaðamönnum vegna sölu á jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal til fyrirtækis í eigu erlendra aðila. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi áhyggjur af sölunni og innt er eftir viðbrögðum.
Sveitarfélagið hefur ekki forkaupsrétt að jörðum í sveitarfélaginu og því kom salan ekki inn á borð sveitarstjórnar. Aukin heldur er það ekki á stefnuskrá sveitarstjórnar að kaupa jarðir. Því getur sveitarstjórn ekki annað en setið hjá og vonað að nýir eigendur muni rækta sína jörð, standa við þær skuldbindingar sem felast í jarðareign í sveit og verði virkir þátttakendur í samfélagi sveitarinnar,“ segir Katrín.
Segir Katrín að ráðamenn hafi lengi ætlað að koma lagasetningu á þessi kaup. Bendir hún á að nágrannaþjóðir hafi brugðist við slíkum kaupum og sett lög um að „jarðir þurfi að vera í ákveðnum búskap eða nýtingu, að einn og sami aðili og tengdir aðilar megi ekki eiga fleiri en X jarðir, að eigandi þurfi að vera með lögheimili á jörðinni o.s.frv.“.
„Ég er ein af þeim sem þoli illa að sitja hjá og horfa á þetta gerast fyrir framan nefið á mér. Ég veit að þannig er með margan Íslendinginn. Því hvet ég núverandi ríkisstjórn til lagasetningar á haustþingi sem vonandi tekur fyrir uppkaup á landi með þeim hætti sem er að gerast í dag,“ segir Katrín.
Uppkaup á landi