Categories
Fréttir

„Skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru“

Deila grein

09/08/2019

„Skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru“

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menningarmálaráðherra, segir það hafa verið stór­kost­legt að taka þátt í Íslend­ingadög­un­um í Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu í vikunni, „Fjársjóður í vesturheimi“.
„Vest­ur-Íslend­ing­ar leggja mikið á sig til þess að rækta tengsl sín við Ísland og halda sögu sinni og menn­ingu á lofti. Á þess­um slóðum í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um eru af­kom­end­ur Íslend­inga sem tala ís­lensku án þess að hafa búið á Íslandi. Þrátt fyr­ir að rúm 100 ár séu liðin frá því að bú­ferla­flutn­ing­ar vest­urfar­anna liðu und­ir lok er fólk enn mjög meðvitað um upp­runa sinn og er stolt af hon­um. Slíkt er alls ekki sjálf­gefið en sú þrautseigja, áhugi, dugnaður og þjóðrækni sem býr í Vest­ur-Íslend­ing­um er til eft­ir­breytni,“ segir Lilja.
„Íslend­inga­deg­in­um var fagnað í 120. skipti í bæn­um Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í 130. skipti í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Að deg­in­um standa af­kom­end­ur vest­urfara sem héldu frá Íslandi til Norður-Am­er­íku á ár­un­um 1875-1914 en talið er að milli 15.000 og 20.000 Íslend­ing­ar hafi flust bú­ferl­um og hafið nýtt líf í Vesturheimi. Á þess­um tíma fluttu um 52 millj­ón­ir Evr­ópu­búa til Vesturheims meðal ann­ars vegna þess að land­búnaðarsam­fé­lög­in gátu ekki fram­leitt nægj­an­lega mikið í takt við þá miklu fólks­fjölg­un sem átti sér stað í Evr­ópu en á tíma­bil­inu 1800-1930 fjölgaði íbú­um álf­unn­ar úr 150 millj­ón­um í 450 millj­ón­ir.“
Manitoba er fjöl­menn­asta byggðarlag Íslend­inga í heim­in­um utan Íslands en sam­kvæmt Hag­stofu Kan­ada hafa um 90 þúsund Kan­ada­menn skráð upp­runa sinn sem ís­lensk­an. Sögu þessa fjöl­menna hóps þarf að gera betri skil á Íslandi og það er skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru,“ segir Lilja.