Categories
Greinar

Aðgerðir gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum

Deila grein

10/08/2019

Aðgerðir gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum

Ný­lega lauk þingi Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar, Alþjóðavinnu­málaþing­inu, sem var hið 108. í röðinni. Þess var minnst með marg­vís­leg­um hætti að öld er liðin frá því að stofn­un­in hóf starf­semi árið 1919. Henni var sett það mark­mið að ráða bót á fé­lags­leg­um vanda­mál­um sem öll ríki áttu við að stríða og aðeins yrði sigr­ast á með sam­eig­in­legu fé­lags­legu átaki þjóðanna. Bjarg­föst trú þeirra full­trúa rík­is­stjórna, at­vinnu­rek­enda og launa­fólks sem mótuðu Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ina var að var­an­leg­ur friður yrði ekki tryggður nema fé­lags­legu rétt­læti væri fyrst komið á inn­an þjóðfé­lag­anna. Órétt­læti væri upp­spretta árekstra sem leiddu til styrj­alda þjóða í milli. Þess­ir full­trú­ar höfðu fyr­ir aug­un­um sviðna jörð og hús­a­rúst­ir og áttu marg­ir hverj­ir um sárt að binda eft­ir gíf­ur­leg­ar mann­fórn­ir í fyrri heims­styrj­öld­inni.

Fjöl­marg­ir þjóðarleiðtog­ar og for­ystu­menn í fé­lags- og vinnu­mál­um sóttu þingið af þessu til­efni. Nefna má for­seta Ítal­íu, Frakk­lands, Gana og Suður-Afr­íku. Enn frem­ur fjöl­marga for­sæt­is­ráðherra. Í þeim hópi voru for­sæt­is­ráðherr­ar Nor­egs, Svíþjóðar, Lúx­em­borg­ar, Bret­lands, Nepals o.fl. Aldrei í sögu sam­tak­anna hafa jafn marg­ir sótt þingið, eða rúm­lega sex þúsund full­trú­ar rík­is­stjórna, sam­taka at­vinnu­rek­enda og sam­taka launa­fólks.

Eitt af mik­il­væg­ustu verk­efn­um Alþjóðavinnu­málaþings­ins er að fara yfir ár­lega skýrslu sér­fræðinga­nefnd­ar stofn­un­ar­inn­ar um fram­kvæmd aðild­ar­ríkj­anna 187 á þeim alþjóðasamþykkt­um um fé­lags- og vinnu­mál sem þau hafa full­gilt. Fram­kvæmd Tyrk­lands á alþjóðasamþykkt um fé­laga­frelsi var meðal þess sem kom til kasta þings­ins. Full­trú­ar launa­fólks voru mjög gagn­rýn­ir á ástandið í land­inu og röktu mörg dæmi um það hvernig stjórn­völd hefðu komið í veg fyr­ir starf­semi stétt­ar­fé­laga sem væru þeim ekki að skapi. Einnig var rakið hvernig tug­ir þúsunda höfðu verið hneppt­ir í varðhald vegna upp­log­inna full­yrðinga um stuðning við mis­heppnað vald­arán fyr­ir nokkr­um árum.

Und­ir­bún­ing­ur fyr­ir af­mælis­árið hófst fyr­ir þrem­ur árum. Aðild­ar­rík­in voru hvött til þess að stofna til umræðna og rann­sókn­ar­verk­efna um viðbrögð við fyr­ir­sjá­an­leg­um breyt­ing­um á skipu­lagi vinn­unn­ar og vinnu­um­hverfi. Norður­lönd­in svöruðu þessu kalli með sam­eig­in­legu verk­efni sem fólst í ár­leg­um ráðstefn­um um af­markaða þætti fé­lags- og vinnu­mála. Loka­hnykk­ur­inn í nor­ræna verk­efn­inu var ráðstefna sem hald­in var í Hörpu dag­ana 4. og 5. apríl sl. Sam­eig­in­legt álit var að þessi ráðstefna hefði borið af bæði hvað varðaði skipu­lag og umræður. Nefnd á veg­um Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar, sem laut m.a. for­mennsku Stef­an Löf­vens, for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, vann úr rann­sókn­um og gögn­um frá ráðstefn­un­um sem haldn­ar voru í til­efni af ald­araf­mæl­inu og birti í skýrslu. Í henni áttu sæti þjóðarleiðtog­ar og for­ystu­menn sam­taka at­vinnu­rek­enda og launa­fólks á alþjóðavísu. Efni skýrsl­unn­ar var til um­fjöll­un­ar í sjö áhuga­verðum pall­borðsum­ræðum á Alþjóðavinnu­málaþing­inu. Helsta niðurstaðan er sú að leggja þarf áherslu á end­ur­mennt­un og þjálf­un auk fé­lags­legs stuðnings­kerf­is sem gef­ur fólki tæki­færi til að bregðast við óumflýj­an­leg­um breyt­ing­um sem fylgja nýrri tækni og breytt­um verk- og fram­leiðslu­hátt­um.

Fyr­ir þessu af­mæl­isþingi Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar lágu til­lög­ur að nýrri alþjóðasamþykkt og til­mæli um nán­ari út­færslu á aðgerðum gegn einelti og of­beldi á vinnu­stöðum. Um var að ræða síðari umræðu en fyrri umræða fór fram á þing­inu árið 2018 og lauk í mikl­um ágrein­ingi sem m.a. sner­ist um skil­grein­ing­ar og upp­taln­ingu hópa sem gætu tal­ist í hættu á að verða fyr­ir aðkasti vinnu­fé­laga. Eft­ir mjög strembn­ar umræður tókst góð samstaða í þing­nefnd­inni sem hélt til loka þings­ins. Til­lag­an að samþykkt og til­mæl­um naut víðtæks stuðnings þing­full­trúa. Gildi þess­ara gerða felst í því að með þeim er lagður grunn­ur að aðgerðum til að skapa vinnu­um­hverfi sem bygg­ist á virðingu fyr­ir mann­legri reisn og er laust við hvers kon­ar of­beldi og einelti.

Ég hef þegar óskað eft­ir því við sam­starfs­nefnd fé­lags­málaráðuneyt­is­ins og helstu sam­taka at­vinnu­rek­enda og launa­fólks um mál­efni Alþjóðavinnu­mála­stofn­un­ar­inn­ar að hún taki samþykkt­ina til um­fjöll­un­ar með það fyr­ir aug­um að Ísland verði í hópi þeirra ríkja sem fyrst full­gilda þessa nýju alþjóðasamþykkt sem hef­ur ekki síst það mark­mið að tryggja mann­sæm­andi vinnu­um­hverfi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019.