Categories
Fréttir

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Deila grein

02/03/2016

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Umræðan um viðskiptabann Rússa gagnvart Íslendingum vakti upp háværar umræður hér á landi um utanríkismál. Tónninn var og er stundum sá að þátttaka okkar í viðskiptabanni vestrænna þjóða gegn Rússum sé hreinlega óþarfi. Við þurfum aukna almenna umræðu um utanríkismál og þá sérstaklega varnar- og öryggismál svo að við náum að átta okkur betur á samhengi hlutanna, að sameiginlegur skilningur sé til staðar á milli almennings og á milli stjórnmálamanna.
Ég tel að það sé til dæmis þörf á aukinni umræðu um NATO þar sem ég gæti best trúað að fjölmargir Íslendingar, þá helst kannski í yngri aldurshópunum, viti ekki hvað NATO stendur fyrir og hvers vegna við erum þátttakendur í því varnarsamstarfi. Við erum herlaus þjóð og friðelskandi og ætlum okkur að vera það áfram. Eigum við þá ekki bara að sleppa öllu varnarsamstarfi? Er NATO ekki eitthvað úrelt og óþarft kaldastríðsfyrirbæri? Nei, svo er ekki. Öryggisumhverfi í Evrópu er reyndar gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949. En markmiðin eru þau sömu, þ.e að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag 28 lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Og NATO á í margvíslegu samstarfi við ríki og ríkjabandalög utan NATO, t.d. bandalag Afríkuríkja.
Meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum eru þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins, virkt samstarf við grannríki á sviði öryggismála og varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Við hér uppi á hinu friðsæla og yndislega Íslandi getum ekki leyft okkur að sleppa því að taka umræðuna um varnar- og öryggismál. Við þurfum að vera meðvituð og upplýst vegna þessa að afstaða okkar Íslendinga skiptir máli. Við höfum hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna og eigum að axla okkar ábyrgð þar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.