Categories
Fréttir

„Þorum og dugum og hugsum leiðirnar áfram veginn“

Deila grein

17/05/2022

„Þorum og dugum og hugsum leiðirnar áfram veginn“

Helgi Héðinsson, Mývetningur og Þingeyingur og varaþingmaður, flutti jómfrúarræðu sína í störfum þingsins á Alþingi í dag. Ræddi hann málefni sveitarfélaga, þá nærþjónustu sem þau veita og mikilvægi þess að skapa grundvöll til framþróunar lausna sem snúa að fólki, svo sem í velferðarþjónustu og í skólamálum. „En við þurfum líka að huga að því að nýta betur fjármagnið íbúum til heilla, t.d. með því að spara í yfirbyggingu og stjórnsýslukostnaði og með aukinni áherslu á þjónustuna og styðja betur við frumkvöðla sem koma með góðar hugmyndir en vantar fjármagn til að hrinda góðum verkum í framkvæmd og faglegan stuðning, sem við getum sannarlega veitt.“

Ræða Helga í heild sinni:

„Virðulegur forseti. Það er sannur heiður fyrir Mývetning og Þingeying að fá tækifæri til að taka til máls á þessum vettvangi. Mig langar að nota tækifærið og víkja að málefnum sveitarfélaga. Eins og við öll vitum veita sveitarfélögin mikilvæga nærþjónustu við íbúa þessa lands og markmið okkar er alveg skýrt: Við viljum efla sveitarstjórnarstigið, við ætlum að hlúa að sveitarstjórnarstiginu og við ætlum að skapa grundvöll til framþróunar lausna sem snúa að fólki, svo sem í velferðarþjónustu og í skólamálum, svo dæmi séu tekin. Við ætlum að efla þjónustuna en við þurfum líka að huga að því að nýta betur fjármagnið íbúum til heilla, t.d. með því að spara í yfirbyggingu og stjórnsýslukostnaði og með aukinni áherslu á þjónustuna og styðja betur við frumkvöðla sem koma með góðar hugmyndir en vantar fjármagn til að hrinda góðum verkum í framkvæmd og faglegan stuðning, sem við getum sannarlega veitt.

Það hefur verið talsverð umræða um þennan málaflokk og það er mjög ánægjulegt að nokkrar sameiningar hafi náð fram að ganga á síðustu misserum. Það er ávöxtur umræðunnar og góðrar vinnu að þetta sé að þokast fram á við. En það eru næg verkefni fram undan engu að síður. Boðskapur þessa erindis, nýkominn úr sveitarstjórnarkosningunum, er hvatning til þingheims og hæstv. innviðaráðherra að halda áfram að styðja rækilega við bakið á frekari framþróun þessara mála íbúum til heilla. Að sama skapi er þetta hvatning mín til sveitarstjórnarstigsins, nýkominn úr þessum kosningum. Margir eru í viðræðum um hvað taki við, hver séu næstu mál. Hugsum um þetta. Hugsum um það hvernig við getum nýtt fjármagnið betur, þjónustað fólkið okkar betur.

Kæru kollegar. Þorum og dugum og hugsum leiðirnar áfram veginn.“