Categories
Fréttir

Þreytist seint á að ræða leiðir til þess að fara betur með og auka nýtni

Deila grein

21/03/2016

Þreytist seint á að ræða leiðir til þess að fara betur með og auka nýtni

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég ætla hvorki að varpa sprengjum né hneykslast en ég þreytist seint á að ræða leiðir til þess að fara betur með og auka nýtni. Staðan hjá okkur er sú að á hverju heimili er matvælum að andvirði tugum ef ekki hundruðum þúsunda hent á hverju ári, beinlínis sóað, líkt og gerist reyndar í allri virðiskeðjunni. Það segir sig sjálft að fyrir þann pening er hægt að gera ýmislegt uppbyggilegt, skemmtilegt og jafnvel gagnlegt.
Í gær efndi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, til morgunverðarfundar á Hallveigarstöðum í tengslum við stefnu ráðherra um að draga úr sóun sem ber heitið Saman gegn sóun og gildir til 12 ára. En matarsóun, plast og textíll verða í forgangi tvö ár í senn.
Á fundinum voru flutt mörg áhugaverð erindi og athygli vakin á ýmsum leiðum til nýtni og sagt frá mörgu áhugaverðu sem þegar er komið af stað í úrgangsforvörnum. Þar kynnti fulltrúi Umhverfisstofnunar nýja vefsíðu, matarsoun.is, sem var hleypt af stokkunum í tilefni dagsins og gerði grein fyrir umfangsmikilli rannsókn sem er fram undan. Þetta er aðgengileg síða, afar gagnleg, og ég hvet almenning til að nýta sér hana.
Þá var erindi um Databar-strikamerki og hvernig notkun þess getur leitt til minni matarsóunar og meira neytendaöryggis með því að mæta auknum kröfum neytenda um rekjanleika, vöruupplýsingar og vöruöryggi.
Fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands fjallaði um aðgerðir sem félagið hefur staðið fyrir og þá hugarfarsbreytingu sem hver og einn þyrfti að tileinka sér.
Loks kynnti Landvernd námsefni fyrir grunnskóla sem sett er fram á mjög áhugaverðan hátt og jafnvel gott innlegg í vinnu sveitarfélaga og fyrirtækja á þessu sviði.
Hæstv. forseti. Þá vil ég benda á að mögulegt er að sækja um verkefnastyrki til ráðuneytisins sem stuðla að því að markmiðum stefnunnar verði náð og verði hvati til góðra verka eða nýsköpunar á þessu sviði.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 18. mars 2016.