Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi gervigreind og hvernig hún sé að nýst til að aukinna lífsgæða og til lausna flókinna verkefna. En þegar eru komnar fram áhyggjur af þróuninni og enn eigi eftir að mynda lagaumgjörð og reglur um þróun og beitingu gervigreindarinnar. Hraðinn er slíkur að málsmetandi einstaklingar í tækniiðnaðinum hafa þegar varað við eftirköstum.
„Það er því augljóst að það þarf að stíga varlega til jarðar og þróa og nýta gervigreindina á réttan máta. Það er mikilvægt að Ísland verði ekki eftirbátur annarra ríkja við að skapa slíka umgjörð,“ sagði Lilja Rannveig.
Sérfræðingar og hugsjónafólk á sviði tækninnar hefur ritað opið bréf þar sem lagt er til sex mánaða hlé, á frekari þróun gervigreindarinnar. Þannig verði til svigrúm og tækifæri til að skapa laga umgjörðina.
„Gervigreindin hefur oft birst sem boðberi hamfara í ýmsu afþreyingarefni en áhyggjurnar núna eru annars efnis. Það er nefnilega frekari hætta á aukinni upplýsingaóreiðu, fölsun efnis, sem í raun á sér þegar stað, og fækkun starfa. Við þurfum að mynda lagalega umgjörð um þróun og notkun gervigreindar í sífellt stafrænni heimi. Gervigreindin veitir okkur tækifæri og áskoranir sem við þurfum að vera reiðubúin fyrir,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Gervigreindin er og hefur verið í stöðugri þróun síðustu ár. Margir kostir fylgja þeirri þróun en gervigreindin hefur nýst til að auka lífsgæði, leysa flókin verkefni og vinna í þágu einstaklinga og félaga. Gervigreindin er mögnuð. Hún getur kennt sér sjálfri. Hún getur aflað upplýsinga og nýtt sér þann lærdóm við að leysa verkefni á ógnarhraða. Hún er farin að vera svo sannfærandi að það er oft erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er gert af gervigreind og hvað er gert af manneskju, svo sem raddir, myndir og jafnvel tónlist.
Það er því augljóst að það þarf að stíga varlega til jarðar og þróa og nýta gervigreindina á réttan máta. Nú þegar hafa mjög margir áhyggjur af þessari þróun. Löggjafar alls staðar um heiminn eiga enn eftir að mynda umgjörð og reglur um þróun og beitingu gervigreindar. Það er mikilvægt að Ísland verði ekki eftirbátur annarra ríkja við að skapa slíka umgjörð. Þróun gervigreindarinnar er orðin það hröð að forystufólk í tækniiðnaðinum hefur varað við mögulegum eftirköstum. Sérfræðingar og hugsjónafólk á sviði tækninnar hafa birt opið bréf þar sem mælt er með sex mánaða hléi á frekari þróun gervigreindarinnar til að veita löggjöfum frekari tækifæri til að skapa umgjörðina.
Gervigreindin hefur oft birst sem boðberi hamfara í ýmsu afþreyingarefni en áhyggjurnar núna eru annars efnis. Það er nefnilega frekari hætta á aukinni upplýsingaóreiðu, fölsun efnis, sem í raun á sér þegar stað, og fækkun starfa. Við þurfum að mynda lagalega umgjörð um þróun og notkun gervigreindar í sífellt stafrænni heimi. Gervigreindin veitir okkur tækifæri og áskoranir sem við þurfum að vera reiðubúin fyrir.“