Categories
Fréttir

„Það þarf að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýrinni“

Deila grein

03/05/2023

„Það þarf að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýrinni“

„Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs. Flugvöllurinn þarf að vera áfram í Vatnsmýrinni því að hann skapar öryggi fyrir innanlandsflugið, mætir þörfum sjúkraflugs og er brúin milli landsbyggðar og höfuðborgar. Völlurinn er líka mikilvægur varaflugvöllur í millilandaflugi. Þess vegna er fyrirliggjandi samkomulag ríkis og borgar frá 2019 grundvallarplagg; samkomulag um að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldist óbreytt að lágmarki næstu 20–30 árin eða þar til annar jafn góður eða betri kostur finnst,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Nú liggur fyrir niðurstaða starfshóps, er var settur á eftir að Sigurður Ingi Jóhansson, innviðaráðherra, stoppaði af áform Reykjavíkurborgar fyrir um ári síðan um fyrirhugaða byggð í Skerjafirði, um flugfræðilega rannsókn á hvort hægt væri að byggja í Vatnsmýrinni án þess að það hefði óásættanleg áhrif á flugvöllinn. Það er hægt.

„Reykjavíkurborg fer nú yfir deiliskipulag í samvinnu við Isavia í samræmi við ábendingar úr skýrslunni og þannig þarf að nota það sem þar kemur fram til að breyta áformum og deiliskipulagi. Það er leiðin sem borgin getur notað til að standa við samninginn frá 2019 og byggja nýjan Skerjafjörð án þess að skerða rekstraröryggi flugvallarins.

Það þarf að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýrinni og fara í annað eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Völlurinn er ekki að fara og flug í Vatnsmýri skerðist ekki næstu 20–30 árin,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs. Flugvöllurinn þarf að vera áfram í Vatnsmýrinni því að hann skapar öryggi fyrir innanlandsflugið, mætir þörfum sjúkraflugs og er brúin milli landsbyggðar og höfuðborgar. Völlurinn er líka mikilvægur varaflugvöllur í millilandaflugi. Þess vegna er fyrirliggjandi samkomulag ríkis og borgar frá 2019 grundvallarplagg; samkomulag um að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldist óbreytt að lágmarki næstu 20–30 árin eða þar til annar jafn góður eða betri kostur finnst.

Í síðustu viku kom út skýrsla sem er til komin vegna þess að innviðaráðherra stoppaði af áform sem fara áttu af stað fyrir ári og setti þess í stað af stað flugfræðilega rannsókn til að finna út hvort hægt væri að byggja í Vatnsmýrinni án þess að það hefði óásættanleg áhrif á flugvöllinn og nú liggur niðurstaðan fyrir. Það er hægt. Reykjavíkurborg fer nú yfir deiliskipulag í samvinnu við Isavia í samræmi við ábendingar úr skýrslunni og þannig þarf að nota það sem þar kemur fram til að breyta áformum og deiliskipulagi. Það er leiðin sem borgin getur notað til að standa við samninginn frá 2019 og byggja nýjan Skerjafjörð án þess að skerða rekstraröryggi flugvallarins.

Þá þarf líka að vinna úr öllum veðurmælingum sem til eru um flugvelli landsins. Það þarf líka að bæta við vindmælingum, meta áhrif trjágróðurs eins og í Öskjuhlíð og síðast en ekki síst þarf að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýrinni og fara í annað eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Völlurinn er ekki að fara og flug í Vatnsmýri skerðist ekki næstu 20–30 árin.“