Categories
Fréttir

„Höldum umræðunni faglegri“

Deila grein

03/05/2023

„Höldum umræðunni faglegri“

Talsverð umræða hefur verið um Reykjavíkurflugvöll í kjölfar nýútkominnar skýrslu um áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, var til viðtals um málið á Bylgjunni í morgun, en þar kemur meðal annars fram:

„Ég hef lagt mig fram í öll þau ár sem ég hef verið samgönguráðherra að reyna að draga þessi átakamál upp úr skotgröfunum og pólitískum hernaði og fjalla um þau faglega og málefnalega.“

„Við settum af stað starfshóp með aðkomu sérfræðinga frá ISAVIA, frá Veðurstofunni, frá flugmönnum, stýrt af Eyjólfi Árna, frá Háskólanum var Þorgeir Pálsson, og fulltrúi Reykjavíkurborgar.

Og þessi hópur kemst að sameiginlegri niðurstöðu og segir:

Öll byggð og þar á meðal þessi byggð hefur neikvæð áhrif á flugvöllinn. Hún hefur ekki þau áhrif samt að flugvöllurinn verði ónothæfur eða öryggið laskast ef við förum í mótvægisaðgerðir.“

Aðspurður um hvort afstaða hans sé enn sú sama og að flugvöllurinn eigi áfram að vera á sínum stað, þá segir hann svo vera:

„Að sjálfsögðu! Það verður enginn annar innlandsflugvöllur miðstöð innlandsflugs og sjúkraflugsins en Reykjavíkurflugvöllur, fyrr enn og ef annar betri staður finnst og það verði tekin ákvörðun á morgun, sem er útilokað, því við höfum ekki annan betri stað, þá tekur það 20-25 ár, það liggur því í augum uppi að Reykjavíkurflugvöllur verður áfram á sama stað næstu áratugi.

Sigurður Ingi var einnig spurður hvort uppbyggingin myndi skerða sjúkraflug:

„Nei, að sjálfsögðu ekki. Þá hefði þessi hópur komist að því að þessi byggð myndi skerða sjúkraflug og það myndum við aldrei gera.“

Viðtalið má heyra í heild sinni hér.

Í samhengi flugvallarumræðunnar má enn fremur nefna að Borgarstjórnarflokkur Framsóknar lagði fram svohljóðandi bókun á fundi borgarstjórnar þann 02.05:

Borgarfulltrúar Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar frá 27. apríl:

Borgarstjórnarflokkur Framsóknar fagnar niðurstöðu skýrslu starfshóps innviðaráðherra um áhrif húsnæðisuppbyggingar í Nýja Skerjafirði á Reykjavíkurflugvöll. Niðurstaðan sýnir ótvírætt að óhætt er að hefja uppbyggingu hverfisins að teknu tilliti til mótvægisaðgerða sem starfshópurinn bendir á. Framsókn telur afar mikilvægt að tryggja við útfærslu mótvægisaðgerða að rekstraröryggi flugvallarins sé tryggt í samræmi við samkomulag ríkis og borgar. Næstu misseri á meðan unnið er að flutningi flugvallargirðingar og jarðvegsskipti á byggingarlandinu mun gefast góður tími til að útfæra mótvægisaðgerðir. Á sama tíma fagnar borgarstjórnarflokkur Framsóknar fyrirhugaðri húsnæðisuppbyggingu enda gríðarlega mikilvægt að hraða henni eins mikið og kostur er á.