Categories
Fréttir

Þvættingur

Deila grein

30/03/2017

Þvættingur

Framsóknarflokkurinn gerði samkomulag um kaup á húseigninni að Hverfisgötu 33 í september 1997. Í samkomulaginu var kveðið á um að seljandi, Olíufélagið hf., tæki að sér að annast ákveðnar endurbætur á eigninni áður en til afhendingar kæmi. Þessar endurbætur voru að fullu á kostnað Framsóknarflokksins.
Framsóknarflokkurinn flutti starfsemi sína í húseignina í apríl 1998. Framkvæmdum við endurbætur var þá ekki lokið. Endurbótum lauk á árinu 1999. Kostnaður við kaup á húsinu og endurbætur reyndist á endanum vera tæpar 62 milljónir króna sem var endanlegt kaupverð hússins af Olíufélaginu hf. skv. uppgjöri sem fram fór í lok þess árs.

Í framhaldi af þessu var gengið frá fjármörgnun kaupanna. Þau voru fjármögnuð að mestu með langtímalánum með veði í eigninni að Hverfisgötu 33, alls að upphæð 54,5 milljónir króna. Framsóknarflokkurinn greiddi fyrst af lánunum árið 2000. Lánin voru tekin í apríl 1999 og var lántaki Olíufélagið hf. sem þá var skráður eigandi Hverfisgötu 33 en Framsóknarflokkurinn greiddi af þeim allt frá fyrstu afborgun árið 2000 og yfirtók þau síðan árið 2003.
Eftirstöðvar af kaupverðinu voru greiddar upp á árinu 1999.
Dráttur varð á því að gengið væri frá afsali fyrir eigninni á millli Olíufélagsins hf. og Framsóknarflokksins. Það var ekki gert fyrr en 19. desember 2002 en engar greiðslur áttu sér stað á milli aðila eftir árslok 1999. Olíufélagið hf. hafði við frágang afsals breytt nafni sínu í Ker hf.. Engin sérstök skýring er á því afhverju þetta dróst en það má segja að ekki hafi legið á vegna þess að allar greiðslur höfðu verið gerðar upp og Framsóknarflokkurinn bar allan kostnað af rekstri eignarinnar frá afhendingu.
Samkomulag var um að Olíufélagið hf. afsalaði eigninni beint til annarsvegar til Skúlagarðs hf. sem er hlutafélag í eigu Framsóknarflokksins og þá um 540 félagsmanna í flokknum og hinsvegar Húsbyggingasjóðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík sem var sjóður í eigu Kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn hafði endurselt þessum aðilum eignina í tengslum við uppgjörið sem fram fór 1999.
Það er þvættingur að kaupin á Hverfisgötu 33 hafi á einhvern hátt tengst sölunni á Búnaðarbankanum í árslok 2002.
Einar Gunnar Einarsson,
framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins