Categories
Greinar

Ég vil ganga minn veg, þú vilt ganga þinn veg; en hvað með krónuna?

Deila grein

05/04/2017

Ég vil ganga minn veg, þú vilt ganga þinn veg; en hvað með krónuna?

Það er allnokkuð sérkennilegt að sjá nýjan fjármálaráðherra útskýra, hvað hann átti við með orðum sínum um íslensku krónuna í samtali við Financial Times á dögunum. Benedikt sagði í samtali við FT að til greina kæmi að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Haft var eftir ráðherra og er hér vitnað í þýðingu Mbl.is: „Fjár­málaráðherra Íslands hef­ur viður­kennt að það sé ófor­svar­an­legt fyr­ir landið að viðhalda sín­um eig­in fljót­andi gjald­miðli,…“. Að hans mati er krónan óforsvaranlegur gjaldmiðill og svo sem ekki miklu við það að bæta. Nema kannski helst að hér talar fjármálaráðherra íslensku krónunnar.

En krónan á sér alla vega einn samherja í ríkisstjórninni, forsætisráðherrann Bjarna Benediktsson. Vegna orða fjármálaráðherra var haft eftir forsætisráherra að; „…pen­inga­stefnu­nefnd sé að störf­um og að grund­völl­ur þeirr­ar vinnu sé að krón­an verði framtíðar­gjald­miðill Íslands.“ Staðan er því þessi; peningastefnunefnd grundvallar sína vinnu á því að hér verði íslensk króna, fjármálaráðherra segir sömu krónu óforsvaranlega. Forsætisráðherra er lóðbeint ósammála frænda sínum fjármálaráðherranum. Alla vega í orði kveðnu. Bjarni hefur nefnilega ekki alltaf staðið með íslensku krónunni. Í heilsíðu auglýsingu 20. apríl 2009 hafði núverandi forsætisráðherra þetta að segja um evruna: Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að íslensk stjórnvöld og IMF (AGS) vinni að því í sameiningu að í lok efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.  

Þetta var hið kalda mat forsætisráðherra á sínum tíma.

Mitt kalda mat er það að best sé að halda sig við krónuna, hún er ekki gallalaus, en grundvöllur efnahagslegs sjálfstæðis.

Sigurður Ingi Jóhannsson