Categories
Fréttir

Áfengisfrumvarpið gengur freklega á rétt barna og ungmenna

Deila grein

05/04/2017

Áfengisfrumvarpið gengur freklega á rétt barna og ungmenna

„Hæstv. forseti. Áður en ég kem að því sem ég ætla raunverulega að ræða um langar mig að vekja athygli á bláu hálstaui hv. þingmanna, hæstv. forseta og hæstv. ráðherra. Nú er hafin vitundarvakning um fjölbreytileika einhverfunnar og ég vona svo sannarlega að þetta átak gangi vel og er ánægð með að fá að taka þátt í því hér á hv. Alþingi.

Hæstv. forseti. Í síðustu viku vann velferðarnefnd að umsögn er varðar hið margumrædda áfengisfrumvarp. Nefndin fékk góða gesti á sinn fund, gesti sem starfa á sviði félags- og heilbrigðisvísinda; gesti sem allir vara við samþykkt frumvarpsins og telja að með samþykkt þess muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum, þar með minnkandi unglingadrykkju og öðrum góðum árangri, stefnt í voða; gesti sem vara við samþykkt frumvarpsins og taka mark á rannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem telja að aukið aðgengi geti leitt til aukinnar neyslu og þar með haft slæm áhrif á líðan barna. Þessir gestir vöruðu einnig við samþykkt frumvarpsins þar sem þeir telja að frumvarpið gangi freklega á rétt barna og ungmenna til að vera laus við þrýsting frá áfengisiðnaðinum og auk þess bentu gestir á tengsl áfengis og krabbameins og bentu á ýmsa krabbameinssjúkdóma sem m.a. eiga orsakir sínar að rekja til aukinnar áfengisneyslu.

Ég vona að hv. þingmenn velferðarnefndar geti verið sammála um að afgreiða umsögn frá nefndinni í sameiningu og taka undir varnaðarorð þessara fagaðila. Ég er þó mjög hrædd um að svo verði ekki þar sem formaður velferðarnefndar, varaformaður velferðarnefndar og annar varaformaður velferðarnefndar eru öll á frumvarpi um aukið aðgengi að áfengi.“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 4. apríl 2017.