Categories
Fréttir

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Deila grein

29/11/2013

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSérfræðingahópur um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skilaði ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna niðurstöðum sínum á fundi klukkan níu í morgun. Að því búnu kynnti forsætisráðherra tillögurnar í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin samþykkti að halda áfram vinnu við undirbúning að framkvæmd tillagnanna, m.a. smíði lagafrumvarpa á grundvelli þeirra.
Útfærsla tillagnanna felur í sér viðamestu efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar til þessa.
Tillögurnar og aðgerðaráætlunin verða kynntar á sérstökum fréttamannafundi á morgun eftir að þær hafa fengið umfjöllun hjá þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Tillögurnar verða síðan kynntar á vef ráðuneytisins í framhaldinu.
Sérfræðingahópurinn var skipaður 16. ágúst sl. undir formennsku Sigurðar Hannessonar. Hópurinn hefur síðan unnið að tillögum um útfærslu og framkvæmd höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggði vinnu sína á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktun sem samþykkt var í júní sl., þ.e. að leiðrétta skyldi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Skipaðir voru fjórir undirhópar sérfræðinganefndarinnar sem unnið hafa samhliða henni að útfærslu einstakra þátta. Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Samhliða vinnu sérfræðingahópsins hefur verið unnið að gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar sem ríkisstjórnin væntir að geta lagt fram á yfirstandandi þingi.