Categories
Fréttir

„Tímamót fyrir neytendur og matvælaframleiðendur“

Deila grein

06/06/2019

„Tímamót fyrir neytendur og matvælaframleiðendur“

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður, gerði í ræðu, í störfum þingsins í gær, að umtalsefni aðgerðaáætlun er miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.
Aðgerðaráætlunin er fram komin samhliða frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
„Í mínum huga er hér um að ræða mikil tímamót fyrir neytendur og matvælaframleiðendur. Í 5. lið aðgerðaáætlunarinnar segir, með leyfi forseta:
„Ísland ætlar að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða munu íslensk stjórnvöld stefna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessu skal náð m.a. með banni við dreifingu tiltekinna sýklalyfjaónæmra baktería í matvælum að undangenginni greiningu á stöðunni, uppsetningu eftirlits og í samræmi við opinbera stefnu í aðgerðum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería,““ sagði Þórarinn Ingi.
Ræða Þórarins Inga Péturssonar, varaþingmanns, á Alþingi 4. júní 2019.