Categories
Fréttir

Tryggja þarf áframhaldandi virkt samráð skógræktarinnar og skógarbænda

Deila grein

26/10/2022

Tryggja þarf áframhaldandi virkt samráð skógræktarinnar og skógarbænda

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, var í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi við matvælaráðherra um samstarf við bændur vegna sameiningar Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Líneik Anna fór yfir að stærstu tækifærin með sameiningu stofnananna væru í aukinni samlegð í stoðþjónustu og ýmsum sameiginlegum verkefnum. Þar væri eitt af umfangsmestu áskorunum samstarf við bændur og landeigendur um samstarf og samninga um landgræðslu og skógrækt á því landi sem bændur hafa til umráða.

Í því fellst m.a. ráðgjöf til bænda og landeigenda um landnýtingu og landbætur og líka samningar við bændur sem eru verktakar í landgræðslu og skógrækt fyrir opinbera aðila.

Líneik Anna minnti á að stutt væri síðan sameining Skógræktar ríkisins og landshlutabundnu skógræktarverkefnanna hafi tekið gildi eða 2016 og nýrri stofnun komið á, Skógræktin.

„Í aðdraganda þeirrar sameiningar var lögð áhersla á áframhaldandi virkt samráð skógræktarinnar og skógarbænda, bæði á landsvísu við Landssamtök skógareigenda og við skógarbændur í hverjum landshluta. Samráð um stefnumótun og áherslur í starfinu og sem og um einstök verkefni eins og samningagerð, nýsköpun og þróun,“ sagði Líneik Anna.

Áhersla var á hvatningu til ræktunar og samstarf um þróun uppbyggingar skóga og eins var áhersla á umhirðu og nýtingu skógarauðlindarinnar.

„En þar eru að birtast mikil nýsköpunartækifæri ef rétt er á haldið. Nýjasta tilraunaverkefnið er útflutningur á eldiviðarkubbum úr timbri ræktuðu í Fljótsdal og endurunnu timbri til kyndingar á dönskum heimilum,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna vildi því spyrja matvælaráðherra, hver hafi verið aðkoma bænda og umsjónarmanna lands við vinnu sem lögð er til grundvallar sameiningaráformum, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Jafnframt spurði hún, hvaða áform eru um aðkomu bænda og landeigenda að frekari undirbúningi sameiningar?

Í lok ræðu sinnar spurði hún:

„Verður lögð áhersla á mótun sérstakrar og formlegrar umgjarðar um samráð og samstarf við bændur og landeigendur hjá nýrri stofnun?“

Matvælaráðherra svarði því til að undirbúningur hafi falið í sér að greina reksturinn faglega, samlegð og áhættugreiningu sem hafi verið gerð í samráði við stofnanirnar. Eins hafi verið samstarf t.d. við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skógræktarfélagið, Landvernd og tiltekin sveitarfélög.

„Fólk benti á að það væri skortur á heildarsýn og það var vilji til þess að auka rannsóknasamstarf. Þessi sameining, sem myndi þá í raun og veru byggjast á ákvörðun Alþingis — þar myndi auðvitað samstarf og samráð vera við alla hlutaðeigandi. En í nýrri stefnu og aðgerðaáætlun um landgræðslu og skógrækt, sem var samþætt, er kveðið sérstaklega á um aukið samstarf við landeigendur og sveitarfélög um stefnumörkun og aðgerðir,“ sagði matvælaráðherra.

Í framhaldi nefndi ráðherra að gert væri ráð fyrir að stuðningskerfi fyrir landeigendur og félagasamtök verði skoðuð heildstætt með hliðsjón af stefnumörkuninni.

„Hagsmunaaðilar þurfi að koma að því samtali og þar verði unnar sérstakar svæðis- og landshlutaáætlanir í samstarfi við heimaaðila þar sem skerpt verður á forgangsröðun aðgerða. Þannig að hér eftir sem hingað til leggjum við mjög mikla áherslu á aðkomu heimamanna að þessum brýnu verkefnum,“ sagði matvælaráðherra.

Líneik Anna ítrekaði að orðin væri mjög mikil breyting á umgjörð stofnananna, Skógræktarinnar og Landgræðslu, árið 2016, svo og í vinnunni við landsáætlanirnar og aðgerðaáætlanirnar.

„Ég held að dálítið mikið af orku stofnananna beinst að þeirri vinnu á kostnað þessa daglega samstarfs við bændur og landeigendur. Þess vegna álít ég að núna sé einmitt mjög góður tímapunktur til að beina sjónum að ávinningi af virku samstarfi nýrrar stofnunar og bænda og greina hvaða leiðir tryggi sem skilvirkast samstarf, með áherslu á mótun umgjarðar innan landshluta og á landsvísu.“