Þegar ný ríkisstjórn kemur til starfa er mjög freistandi að halda að það skapist forsendur til að umbreyta öll því sem áður hefur verið gert. Svo má í það minnsta lesa í fréttaflutning Kristjáns Más Unnarssonar blaðamanns í frétt á Stöð 2 og Vísi þann 30. janúar síðastliðinn í frétt sem ber yfirheitið „Segir nýja forgangsröðun jarðganga uppi á borðinu“ þar sem blaðamaður leyfir sér að túlka frjálslega orð nýs ráðherra um næstu jarðgögn. En hafa skal það sem rétt reynist og blaðamenn ættu að gæta að hlutleysi í fréttaflutningi.
Ráðherra samgöngumála Eyjólfur Ármansson hefur sagt að jarðgagnaáætlun, sem er hluti af samgönguáætlun, yrði á þingmálaskrá í haust. Um röðun jarðgangna ætlar ráðherra ekkert að gefa út fyrr en áætlunin verði kynnt.
Burtséð frá því hvað ráðherra vill gefa mikið út um samgönguáætlun á sínum fyrstu dögum þá skal því haldið til haga að í 3 kafla stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að ríkisstjórnin muni rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð. Ljóst er að leggja þarf fram fjármálaáætlun á næstu vikum og í henni kemur í ljós hvort fjármagn verði sett í jarðgangnagerð á Íslandi á kjörtímabilinu. Verði svo, er ljóst að Fjarðarheiðargöng eru einu gögnin sem eru tilbúin, fullhönnuð og bíða útboðs og hefur Vegagerðin nú sett um 600 milljónir í hönnun þeirra. Önnur göng verða hreinlega ekki tilbúin til útboðs á þessu kjörtímabili.
Förum yfir tímalínu jarðgagnagerðar. Umhverfismat og jarðfræðirannsóknir taka almennt 2 ár, hönnun er unnin samhliða rannsóknum og tekur um 3-4 ár og er skipulagsvinna unnin samhliða. Þá tekur við útboðsferill sem getur tekið um ár. Glöggir lesendur sjá, jú 4-5 ár fram að fyrstu skóflustungu en þá bætist við verktími, sem yfirleitt er nokkur ár, Gerð Fjarðarheiðarganga tekur til að mynda um 7 ár. Sjá má að ansi langur tími líður frá hugmynd á blaði í samgönguáætlun og fram að því að spenntur ráðherra getur klippt á borða og hleypt umferð um göngin.
Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Því skal haldið hér til haga að vilji meirihluta samgöngunefndar við samþykkt samgönguáætlunar árið 2020 var skýr, hefja ætti rannsóknir og hönnun á Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngum um leið og vinna við Fjarðarheiðargöng myndi hefjast. Það var svikið í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem lögð var fram á vorþingi 2024.
Þegar slá á ryki í augu okkar vongóðra sveitarstjórnarmanna um uppbyggingu nauðsynlegra samgönguinnviða er vísað til ósamstöðu innan landshlutans. Því er ekki fyrir að fara heldur hefur fólk hér einfaldlega ekki trú á því að við munum fá öll þau jarðgöng sem okkur hefur verið lofað og veldur það togstreitu sem nærir einhverja blaðamenn.
Sveitarstjórnir á öllu Austurlandi samþykktu í byrjun þessa kjörtímabils svæðisskipulag það sem fram kemur að áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands. Vert er að bæta við að samkvæmt efnahagsgreiningu sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi lét vinna kemur fram að Austfirðingar, sem eru 2,9% af heildarmannfjölda Íslands, skapa nær fjórðung útflutningstekna (af vöruútflutningi). Þannig má segja að hver Austfirðingur framleiði tífalt á við aðra í landinu. Til að halda áfram og auka verðmætasköpun landshlutans þurfum við á hringtengingunni að halda.
Við ráðherra vil ég segja, kæri ráðherra samgöngumála, ég hvet þig að hafa hringtengingu Austurlands áfram í forgangi í jarðgangnamálum líkt og er í gildandi samgönguáætlun og að hefja útboð á Fjarðaheiðargöngum sem fyrst.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2025.