Categories
Fréttir

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Deila grein

31/05/2018

Um Vatnajökulsþjóðgarð

Virðulegur forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni málefni Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann er einn af mikilvægustu seglum ferðaþjónustunnar á Íslandi og sækir stór hluti þeirra ferðamanna sem koma til landsins þjóðgarðinn heim. Stjórnunar- og verndaráætlun garðsins hafa verið í endurskoðun og atvinnustefna í mótun frá árinu 2013. Ný drög stjórnunar- og verndaráætlunar ná hins vegar ekki til Breiðamerkursands sem tekinn var inn í þjóðgarðinn með jörðinni Felli árið 2017. Því er engin áætlun í gangi á því svæði og enn síður atvinnustefna, sem þó er ekki vanþörf á.

Ég vil því benda á að atvinnustarfsemi og verndun svæðisins sem flestir gestir heimsækja er í ólestri og er nauðsynlegt að ríkið bregðist við með afgerandi hætti með því að vinna að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand og móta atvinnustefnu hið fyrsta með meginmarkmið Vatnajökulsþjóðgarðs að leiðarljósi.
Þriðja meginmarkmiðið hljóðar svona, með leyfi forseta:
„Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leitast við, með stefnu sinni, ákvörðunum og í framkvæmd, að ýta undir að gæði og sérstaða þjóðgarðsins séu nýtt til frekari eflingar atvinnu og búsetu á svæðinu, til nýsköpunar í atvinnulífi, til listsköpunar og miðlunar á menningu svæðisins.“
En það er mikilvægt að undirstrika að væntingar til garðsins hafa verið og eru enn þá miklar. Fjölmargar fjölskyldur hafa á undanförnum árum lagt út í miklar fjárfestingar við að byggja upp fyrirtæki í afþreyingu fyrir ferðamenn, auk þeirra sem byggt hafa upp gisti- og veitingaþjónustu. Þessi litlu og viðkvæmu fyrirtæki gera út á jöklagöngur við Breiðamerkursand yfir veturinn þar sem stórbrotnir íshellar myndast. Nú skiptir máli að standa við þau orð að atvinnulíf geti þrifist á grunni náttúruverndar og efla þannig byggð á nærsvæðinu. Ef það mistekst í Vatnajökulsþjóðgarði má spá því að erfiðara verði fyrir ríkisvaldið að eiga í samstarfi við sveitarfélög um verndun annarra svæða.
Ásgerður Gylfadóttir, í störfum þingsins 29. maí 2018.