„Hvort, hvernig, hvenær og af hverju ætti að selja hlut ríkisins í einum banka eða öllum — eða ekki? Gagnsæ stjórnsýsla, gagnsæ upplýsingagjöf, opið og gagnsætt söluferli — hvað þýðir þetta gagnsæi? Má gagnsæi víkja fyrir hagsmunum markaðsaðila? Gagnsæi er alltaf háð takmörkunum, hvað þá í viðskiptalífinu. Lykilatriðið hér er aðgengi að upplýsingum,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í sérstakri umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkunum á Alþingi í gær.
„Almenningur þarf að reiða sig á ákvarðanir stjórnmálamanna, en hversu mikil afskipti eiga stjórnmálamenn að hafa af rekstri banka? Við viljum hafa armslengdina þegar hentar en geta gripið starfsemina traustataki þegar okkur líkar ekki hvert skal stefnt, eins og með uppbyggingu höfuðstöðva Landsbanka Íslands sem stendur nú yfir hér í nágrenninu.“
„Umræðan verður líka að snúast um stefnu, hvaða skoðun þeir sem fara með valdið hafa á því hvað á að gera. Söguna þekkjum við og er búið að fara yfir hana hér. Vantraust gagnvart einum stjórnmálamanni getur yfirfærst á alla stjórnmálamenn og öll stjórnmálin. Þannig verður vantraust gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum kerfislægt.“
„Eflaust telja sumir stjórnmálamenn sig meira traustsins verða til að taka ákvarðanir varðandi sölu og/eða sameiningu bankanna. Á að breyta um rekstrarform eða fyrirkomulag eins og hugmyndir um samfélagsbanka? Er bankastarfsemi á Íslandi of stór? Er óbreytt staða besta lausnin? Þess vegna er sú umræða sem hér fer fram mjög mikilvæg og þörf og sannarlega vakna ótal spurningar. Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa,“ sagði Hjálmar Bogi.
Categories
„Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa“
22/10/2019
„Umfram allt þarf að vanda sig, fara sér hægt og upplýsa, upplýsa og upplýsa“