Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA) 2019

Deila grein

22/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA) 2019

19. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, haldið í Eyjafirði þann 19. október 2019, telur brýnt að áfram verði unnið með stöðugleika, traust og jöfnuð í fyrirrúmi til framtíðar, landi og þjóð til heilla.
Samgöngur tengja byggðir
Þingið fagnar átaki í samgöngum s.s. með auknum fjárframlögum í vegakerfið og jarðgöng. Markmiðið er sterkara samfélag; aukið öryggi, styttri vegalengdir og efling atvinnusvæða. Sérstaklega ber að fagna gerð jarðgangaáætlunar. Þingið fagnar því að unnið er að gerð flugstefnu fyrir Ísland og heildstæðri stefnu í almenningsamgöngum. Þingið leggur ríka áherslu á áframhaldandi uppbyggingu millilandaflugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Jafnframt að skoska leiðin komi sem allra fyrst til framkvæmda.
Menntun er meginstoð
Þingið fagnar fyrirhuguðum breytingum á LÍN, Lánasjóði íslenskra námsmanna sem felur í sér aukinn og markvissari stuðning við námsmenn og eykur jafnræði. Mikill þjóðhagslegur ávinningur felst í þeirri auknu skilvirkni sem stefnt er að með nýju kerfi. Þingið minnir á nauðsyn þess að efla hlut iðn-, tækni- og verkgreina í menntakerfinu. Þá er brýnt að standa vörð um tungumálið okkar og auka lestraráhuga þjóðarinnar. Tryggja þarf burði háskóla- og rannsóknarstarfsemi í kjördæminu til að sækja fjármagn í rannsóknar- og nýsköpunarsjóði í samvinnu við atvinnulífið.
Auðlindir í eigu þjóðar
Þingið fagnar vinnu þingflokks Framsóknarflokksins um endurskoðun á reglum um jarðakaup og bættri stjórn á landnýtingu. Sömuleiðis fagnar þingið þeirri vinnu sem skýra á stefnu og samstarf um nýtingu og verndun á miðhálendi Íslands, en varar við því að of geyst verði farið og telur að aðrar leiðir en stofnun miðhálendisþjóðgarðs geti náð sömu markmiðum. Varast þarf að hefta alla atvinnustarfsemi á miðhálendinu, skerða ákvörðunar– eða skipulagsvald sveitarfélaga og viðhalda þarf ábyrgð og frumkvæði heimamanna við umsjón og eftirlit miðhálendisins. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta eða endurheimt landgæða.
Þingið telur brýnt að skýra auðlindaákvæði í Stjórnarskrá Íslands.
Matvæli og stefna
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda, aukið virði afurða, bættan rétt neytenda og að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Þingið hvetur ríkisstjórnina til að flýta þeirri vinnu sem mest. Samræma þarf frekar stefnumörkun stjórnvalda sem tengjast málefninu og leggja frekari áherslu á þætti sem varða, auk landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, umhverfis- og auðlindamál, byggðamál, neytendamál, nýsköpun, ferðamál, matvælaöryggi og fæðuöryggi og þar með lýðheilsu og heilbrigðismál.
Hagsmunir barna og húsnæði
Þingið fagnar áherslu ríkisstjórnarinnar að setja málefni barna í forgang og tryggja meiri skilvirkni í stoðþjónustu við börn og fjölskyldur. Lenging fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og úrbætur í húsnæðismálum er hluti af nauðsynlegum úrbótum á lífskjörum íslenskra fjölskyldna. Sérstaklega leggur þingið áherslu á eftirfylgni góðra tillagna um stuðning við uppbyggingu húsnæðis á köldum svæðum á landsbyggðinni, fyrstu kaupendur og leigjendur.
Atvinna og nýsköpun
Undirstaða velferðar er atvinna. Nýsköpun og uppbygging grunninnviða skapar atvinnutækifæri víða um land. Tryggja þarf aðgang að raforku, háhraðanettengingum og að allir landsmenn greiði sama verð fyrir dreifingu raforku. Mikil tækifæri liggja í betra skipulagi landnýtingar, nýsköpun í ferðaþjónustu og bindingu kolefnis í landi en það verður að gera í samvinnu og á grunni þess landbúnaðar sem fyrir er. Tryggja þarf landbúnaði eðlilegar aðstæður í samkeppni við innflutta matvöru með samstarfi afurðastöðva og í sambærilegum kröfum um framleiðsluaðstæður og gæði vöru. Sauðfjárrækt er mikilvæg stoð allrar byggðar í strjálbýli í kjördæminu og skapa verði sauðfjárbændum tækifæri til að þróa atvinnugreinina og taka að sér fleiri verkefni sem krefjast þekkingar á landi og landnotkun. Mikilvægt er að skapa fyrirtækjum hvata til nýsköpunar til að auka verðmæti afurða auðlindanýtingar á landi og sjó. Þingið telur brýnt að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Heilbrigði fólksins
Þjóðin er að eldast og mikilvægt að huga að breyttri samfélagsgerð. Tryggja þarf minni hjúkrunarheimilum gólf í fjárveitingum og tryggja nægjanlegar og samræmdar greiðslur til annarra hjúkrunarheimila. Öflug heilsugæsla þar sem þverfagleg þekking er til staðar er grunnstoð góðrar heilbrigðisþjónustu. Það er fagnaðarefni að nú hafi geðheilbrigðisteymi tekið til starfa í heilsugæslunni. Kostnaður við þjónustu sérfræðilækna má ekki bitna á grunnþjónustu heilsugæslunnar. Lögð er áhersla á að Sjúkratryggingar Íslands ljúki samningum við sérfræðinga sem tryggi þjónustu um land allt.