Categories
Fréttir

„Horfðu á staðreyndirnar“

Deila grein

23/10/2019

„Horfðu á staðreyndirnar“

„Hæstv. forseti. Tilhneiging mannsins til að halda að heimurinn sé verri en hann er er rík. Vissulega á og má alltaf gera betur með samvinnu og samtal að leiðarljósi og benda á lausnir og leiðir. Saman getum við nefnilega gert svo ótal margt. Við málum okkar eigin mynd með litum af hlutunum eftir því sem við lesum í dagblöðum, fréttum af netinu, af Facebook, Twitter og jafnvel í athugasemdafærslum við fréttir. Markmið þessara miðla er sjaldnast að veita ítarlega eða heildarmynd af hverju máli. Þannig mótast hin fyrirframgefna mynd af ástandinu hverju sinni,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
„Þann 20. október sl. fögnuðum við evrópska tölfræðideginum, degi hagtalna. Kjörorð dagsins eru: „Horfðu á staðreyndirnar.“ Kjörorðið minnir á að lýðræðisríki þarf að standa á traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðiupplýsinga. Í tilefni dagsins opnaði Hagstofa Íslands nýja vísasíðu sem hýsir m.a. félagsvísa og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar má finna fjölbreytta mælikvarða félagslegrar velferðar. Félagsvísar gefa heildarmynd af stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar og ég hvet alþingismenn, sveitarstjórnarfulltrúa og borgara almennt til að kynna sér og skoða þetta vefsvæði.
Með leyfi forseta langar mig að vitna í nokkrar niðurstöður: Hlutfall fólks sem verður fyrir óþægindum vegna óhreininda eða mengunar í nærumhverfi sínu minnkar. Heildartekjur eru að aukast. Hlutfall þeirra sem upplifa skort eða verulegan skort minnkar. Hlutfall þeirra sem eru viðtakendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga lækkar. Fólki sem neitar sér um tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar fækkar.
Fleiri vísar eru í vinnslu og við bíðum spennt eftir þeim.
Setjum fókusinn þangað sem viðfangsefnin eru sem þarf að leysa í stað almennra frasa og fullyrðinga um alla hópa fólks þegar átt er við fáa. Gerum þess vegna gott betra fyrir alla,“ sagði Hjálmar Bogi.