Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) 2019

Deila grein

23/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) 2019

Þingið lýsir ánægju sinni með árangursríkt stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem byggir á metnaðarfullum stjórnarsáttmála flokkanna. Ríkisstjórnin hefur með áherslum sínum í síðustu kjarasamningum, lífskjarasamningunum, tekist að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem var orðið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk mátti sitja eftir. Með þessu náðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.

Alls staðar er tekið eftir góðum verkum ráðherra okkar og þingmanna Framsóknarflokksins. Þing KSFS lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Ráðherrum flokksins hafa verið falin mikilvæg og stór málefni en þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu í heild og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.

Mikil sóknarfæri eru í Suðurkjördæmi og liggja tækifærin víða. Ör íbúafjölgun á svæðinu með miklum vaxtarverkjum samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna reynir mjög á alla innviði. Helst má nefna heilbrigðisþjónustu sem vinna þarf í samræmi við nýsamþykkta heilbrigðisstefnu, sem tekur mið af þörfum allra landsmanna. Auk þess er afar brýnt að auka enn frekar fjármuni til löggæslu í kjördæminu til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna bæði erlendra og innlendra.

Þing KSFS fagnar nýrri tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Ánægjulegt er að sjá mikilvægar framkvæmdir í kjördæminu fyrr í nýrri áætlun enda er umferð um kjördæmið þung allan ársins hring. KSFS fagnar þeirri umræðu sem snýr að umferðaröryggi og styður skoðun á þeim möguleika að nýjum vegi yfir Hornafjarðarfljót, láglendisvegi í gegnum Mýrdal með göngum í gegnum Reynisfjall og nýrri Ölfusárbrú við Selfoss verði flýtt með innheimtu veggjalda. Þannig yrði tryggt að innheimt veggjöld renni með gagnsæjum hætti til þeirra framkvæmda sem þeim er ætlað að fara í. Þing KSFS leggur ríka áherslu á að einbreiðar brýr í kjördæminu heyri sögunni til enda eru þær dauðagildrur í þeim umferðarþunga sem nú er staðreynd.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sýnt mikið hugrekki og frumkvæði með hugmyndum að mögulegri sameiningu sveitarfélaga og þeim jákvæðu hvötum sem kynntir eru í tengslum við sameiningar. Þing KSFS hvetur fulltrúa Framsóknar í sveitarstjórnum í kjördæminu til að hafa frumkvæði að umræðu um kosti og gallasameiningar sveitarfélaga. Svör við krefjandi spurningum fást ekki nema svara sé leitað.

Ferðaþjónustan er mikilvæg útflutningsgrein í kjördæminu og er nauðsynlegt að hlúa að innviðum greinarinnar ekki hvað síst er varðar öryggi ferðamanna og ásýnd náttúru landsins. Til að standa undir frekari uppbyggingu hvetur þing KSFS til að kanna verði til hlítar hvort lagt verði á komu- eða brottfarargjald og það fært til sveitarfélaganna í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Framsókn vill öflugt menntakerfi með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Nýsköpun og þróun verður að efla á öllum skólastigum og fagnar þing KSFS áherslum mennta- og menningarmálaráðherra við að efla menntakerfið á öllum skólastigum með auknum fjárframlögum til að auka gæði náms.

Þing KSFS fagnar sérstaklega flutningi ungmennabúða UMFÍ að Laugarvatni og hvetur mennta- og menningarmálaráðherra til að efla samstarf og stuðning við íþróttir, æskulýðsstarf og öldrunarstarf eins og birtist m.a. í nýrri íþróttastefnu ríkisins.

KSFS leggur áherslu á að lausnir í húsnæðismálum eins og kynntar voru í stjórnarsáttmálanum nái fram að ganga og er þá afnám verðtryggingar af lánum einn veigamesti liðurinn í því. Erfiðleikar við að koma sér upp eigin húsnæði eru eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku samfélagi og á því þarf ríkisstjórnin að taka. Þing KSFS fagnar auknu stofnframlagi félags- og barnamálaráðherra til byggingar eða kaupa almennra íbúða með það að markmiði að fjölga leiguíbúðum í almenna íbúðakerfinu. Þá fagnar þingið ákvörðun ráðherra um sérstök lán til nýbygginga á landsbyggðinni.

Kjördæmisþing KSFS hvetur til þess að verðmæti sem safnast saman við flokkun sorps verði sem mest nýtt hér á landi til að minnka óþarfa flutninga. Með því verði dregið úr kolefnisspori landsins og stuðlað að frekari verðmætasköpun innanlands.

Í gegnum árin hefur ekki verið gefið jafnt til allra landsmanna og er helsta dæmið um það sú mismunun sem er í verðlagningu á flutningi á raforku. Þessi mismunun stendur uppbyggingu landsbyggðarinnar fyrir þrifum og nú þegar ríkisstjórnin hefur samþykkt háleit markmið um orkuskipti í samgöngum er rétt að Alþingi taki af skarið og leiðrétti þetta misrétti með lagasetningu. Eðlilegt væri að landið væri allt eitt gjaldsvæði eins og í símaþjónustu.

Standa þarf vörð um íslenskan landbúnað, sem er einn af hornsteinum byggðar um allt land, og fylgja fast eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um greinina. Óásættanlegt er að fluttar séu inn búvörur sem framleiddar eru við minni kröfur um aðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi.

Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi geldur varhug við framkomnum hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þingið leggur áherslu á að fyrirliggjandi tillaga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands felur í sér skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga, réttindum íbúa þeirra ásamt því að koma í veg fyrir frekari orkuöflun á miðhálendinu. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta á miðhálendinu í ljósi áætlunar ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum.

Fyrirliggjandi tillaga hvað varðar mörk þjóðgarðs á miðhálendinu virðist fyrst og fremst tilkomin til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi á hálendi Íslands. Mikilvægt er að innan þjóðgarðs sé tryggður vöxtur og viðgangur atvinnustarfsemi heimafólks sem unnin er í sátt við íslenska náttúru með sjálfbærni að leiðarljósi.

Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á í ljósi þeirrar náttúruvár sem er í kjördæminu að lokið verði við stofnun hamfarasjóðs sem fyrirhugað er að leysi Náttúruhamfaratryggingu Íslands og A- deild bjargráðasjóðs af hólmi.