Categories
Fréttir

Kjörin fyrst kvenna fyrir 70 árum og fyrst í Reykjavík!

Deila grein

24/10/2019

Kjörin fyrst kvenna fyrir 70 árum og fyrst í Reykjavík!

Í dag fyrir 70 árum var Rannveig Þorsteinsdóttir fyrst kvenna til að vera kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og fyrsti Framsóknarmaðurinn sem kjörinn var í Reykjavík.
Mikið kapp var lágt á hjá Framsóknarflokknum að ná fyrsta alþingismanninum fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík í alþingiskosningunum 23.-24. október 1949.
„Reykvíkingar! Kjósið Rannveigu Þorsteinsdóttur X-B-listinn“ voru skilaboðin á loka metrum baráttunnar, einföld og skýr.
„Dagurinn í dag er örlagastund í lífi íslenzku þjóðarinnar. Sá úrskurður, sem kjósendurnir fella yfir flokkunum og frambjóðendum þeirra við kjörborðin í dag, getur haft úrslitaþýðingu fyrir sjálfstæði og afkomu þjóðarinnar um langan aldur,“ sagði í forystugrein Tímans 23. október 1949.
Í minningarorðum á Alþingi í janúar 1987 mælti forseti sameinaðs þings svo: „Rannveig Þorsteinsdóttir, hæstaréttarlögmaður og fyrrv. alþingismaður, andaðist á Reykjalundi í fyrradag, sunnudaginn 18. janúar, 82 ára að aldri.
Rannveig Þorsteinsdóttir var fædd 6. júlí 1904 á Sléttu í Mjóafirði. Foreldrar hennar voru hjónin Þorsteinn sjómaður þar Sigurðsson bónda, síðast að Hestgerði í Suðursveit, Gíslasonar og Ragnhildur Hansdóttir bónda á Keldunúpi á Síðu Jónssonar.
Hún hóf nám í kvölddeild Samvinnuskólans 1922, settist í eldri deild skólans haustið 1923 og lauk burtfararprófi vorið 1924. Næsta vetur var hún í framhaldsdeild skólans. Tveimur áratugum síðar hóf hún að nýju skólanám, lauk stúdentsprófi utanskóla í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands vorið 1949. Héraðsdómslögmaður varð hún 1952 og hæstaréttarlögmaður 1959. Afgreiðslumaður Tímans var hún 1925-1936 og jafnframt stundakennari við Samvinnuskólann 1926-1933. Hún var bréfritari við Tóbaksverslun Íslands 1934-1946. Frá 1949 rak hún málflutningsskrifstofu í Reykjavík til 1974.
Rannveig Þorsteinsdóttir var í stjórn Kvenfélagasambands Íslands 1947-1963, formaður þess frá 1959, og hún var formaður Félags íslenskra háskólakvenna og Kvenstúdentafélags Íslands 1949-1957. Árið 1949 var hún kjörin alþingismaður Framsfl. í Reykjavík og sat á þingi til 1953, á fjórum þingum þess kjörtímabils, en áður hafði hún verið þingskrifari frá 1942 til 1948. Dómari í verðlagsdómi Reykjavíkur var hún frá 1950 nokkur ár. Hún sat oft sem varafulltrúi á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins á árunum 1951-1964. Hún var í happdrættisráði Háskóla Íslands 1951-1977, í útvarpsráði 1953-1956 og síðar nokkra mánuði milli alþingiskosninganna árið 1959 og í yfirskattanefnd Reykjavíkur var hún 1957-1963.
Rannveig Þorsteinsdóttir hóf störf sín að félagsmálum í ungmennafélagshreyfingunni og hún var síðar mörg ár í stjórn Ungmennafélags Íslands. Hún var áhugasöm um réttindi kvenna og í samtökum þeirra var hún skipuð til forustu. Í málflutningsskrifstofu hennar áttu konur stuðning vísan ef á þurfti að halda. Hún var forkur dugleg til allra verka og það er ekki allra að hverfa úr föstu starfi um fertugt og ljúka menntaskóla- og háskólanámi á skömmum tíma.
Nú eru liðnir rúmir þrír áratugir síðan hún hvarf af Alþingi eftir fjögurra ára setu. Störf sín hér vann hún með röggsemi og dugnaði svo sem önnur ævistörf. Síðustu æviárin hlaut hún þó að draga sig í hlé sökum vanheilsu.“