Samband ungra Framsóknarmanna (SUF) fagnar 80 ára starfsafmæli þann 13. júní n.k. en í tilefni afmælisins var blásið til hátíðar í Menntaskólanum að Laugarvatni um nýliðna helgi. Fjölmenni sótti viðburðinn enda ekki á hverjum degi sem að ungliðahreyfing nær jafn háum starfsaldri. Meðal gesta voru þingmenn, ráðherrar, fyrrum formenn SUF og fulltrúar Nordiska Centerungdomens Förbund, regnhlífahreyfingar ungra miðjumanna á Norðurlöndum.
SUF var stofnað þann 13. júní 1938 í Héraðskólanum á Laugarvatni, þar var kjörin fyrsta stjórn sambandsins skipuð fulltrúum úr öllum kjördæmum landsins. Í gegnum árin hefur sambandið komið víða við og margir fyrrum formenn þess síðar orðið þingmenn, ráðherrar eða gegnt öðrum ábyrgðarstöðum í samfélaginu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokkinn var meðal þeirra sem ávarpaði samkomuna á Laugarvatni og þá tók einnig til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Bæði þökkuðu SUF ómældan stuðning í síðustu kosningabaráttum og vinnusemina sem býr í unga fólki flokksins. Emma Tcheng, ritari NCF bar þá góðar kveðjur frá norrænum systursamtökum og Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍA talaði um liðsheildina og mikilvægi þess að setja sér markmið til að ná árangri.
„Það skiptir verulegu máli að hlúa að ungliðastarfi innan stjórnmálaflokka. Þetta er frábær vettvangur til þess að taka þátt félagsstörfum og auka lýðræðisvitund sína. Helgin var vel heppnuð í alla staði, góð mæting og ég er bjartsýn fyrir komandi árum í starfi sambandsins“, sagði Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF.
Auk hátíðardagskrár í Menntaskólanum að Laugarvatni var svokölluð Steingrímsþúfa heimsótt þar sem að SUF tók flag í fóstur fyrir 30 árum síðan en þar stendur nú blómlegur lundur. Gróðursett var tré til merkis um áframhaldandi vöxt í starfi sambandsins og ávarpaði Gissur Pétursson, fyrrum formaður SUF, viðstadda og reifaði sögu þúfunnar.
Mynd 1: Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF
Mynd 2: Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra
Mynd 3: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra
Mynd 4: Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍA og markþjálfi
Mynd 5: Fyrrum formenn SUF, frá vinstri: Sandra Rán Ásgrímsdóttir, Páll Marís Pálsson, Hafþór Eide Hafþórsson, Einar Kristján Jónsson, Gissur Pétursson, Guðjón Ólafur Jónsson og Siv Friðleifsdóttir
Categories
Ungir framsóknarmenn halda upp á 80 ára afmæli
12/06/2018
Ungir framsóknarmenn halda upp á 80 ára afmæli