Categories
Greinar

Ráðstafanir gegn örplastmengun

Deila grein

08/06/2018

Ráðstafanir gegn örplastmengun

Örplastmengun er vaxandi vandamál en það finnst víða í náttúrunni. Umræða um örplast í snyrtivörum hefur verið talsvert áberandi en sannleikurinn er sá að stór hluti örplastagna á uppruna sinn annars staðar frá en að mestu koma agnirnar frá dekkjum. Nauðsynlegt er að kortleggja uppruna örplasts og leiðir þess til sjávar og grípa til aðgerða til verndar umhverfinu.  Í ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála er verið að undirbúa slíka úttekt.

Engar íslenskar rannsóknir

Norðurlöndin hafa gert áætlun um aðgerðir gegn plastmengun í náttúrunni og í tengslum við hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem var haldin í júní árið 2017 lýstu mörg ríki, Ísland þar á meðal, yfir vilja sínum til að stefna að því að banna örplast í snyrtivörum þar sem það er meðal mengunarefna sem geta haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Á Íslandi hafa ekki verið gerðar rannsóknir á magni örplasts frá snyrtivörum í umhverfinu en reikna má með að magn þess sé hlutfallslega það sama og á Norðurlöndum. Í Danmörku hefur verið gerð skýrsla þar sem birt er yfirlit yfir helstu uppsprettur örplasts í umhverfinu og skiptast þær sem hér segir: Dekk 60%, skófatnaður (sólar) 7,3%, skipamálning 7,1%, vegamálning 5,1% og önnur málning 4,2%. Aðrar uppsprettur eru um 17% og þar af koma 0,1% frá snyrtivörum. Rannsóknir frá Noregi og Svíþjóð sýna svipaðar niðurstöður.

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn plasti

Eins og fram kemur er örplast sem berst út í umhverfið frá snyrtivörum einungis brot af heildarmagni örplasts í umhverfinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er kveðið á um eflingu rannsóknarstarfs, stuðning við nýsköpun og varnir gegn plastmengun í hafi. Kveðið er á um að ráðist verði í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda. Gera þurfi átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga en veruleg þörf sé á uppbyggingu í þessum málaflokki. Ljóst er að hér á landi er skortur á upplýsingum um örplast í fráveitum og því er þörf á að rannsaka málið og kortleggja það. Þó hefur Ísland tekið þátt í norrænu samstarfsverkefni með Svíþjóð og Finnlandi. Meðal annars voru öragnir í fráveitu í Klettagörðum og Hafnarfirði skoðaðar. Rannsakað var hvort skolphreinsistöðvar væru gátt fyrir öragnir út í umhverfið, magn öragna í viðtakanum (hafinu) metið við útfallsrör og upplýsingum safnað saman svo að hægt væri að meta áhrif þeirra á lífverur. Helstu niðurstöður voru að gróf síun á skolpi fæli í sér takmarkaða hreinsun á örögnum og að enginn munur væri á fjölda öragna í inn- og útflæði í íslenskum sýnum.

Fráveiturnar hreinsa ekki öragnir

Þá lét Reykjavíkurborg taka saman minnisblað í nóvember árið 2016 um nokkur atriði sem varða örplast í skolpi á höfuðborgarsvæðinu, einkum með tilliti til möguleika á hreinsun örplasts úr skolpinu. Jafnframt var metinn kostnaður við þær aðgerðir sem líklegar eru til að tryggja viðunandi hreinsun. Meginniðurstöður eru þær að við núverandi aðstæður hreinsar fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins lítið sem ekkert af örplasti úr skolpi. Fullkomnar hreinsistöðvar myndu ná að hreinsa úr skolpi langstærstan hluta þess örplasts sem þangað berst. Nú eru einkum tvær aðferðir notaðar til að hreinsa örplast úr skolpi, en það eru settjarnir eða síukerfi.

Að þessu sögðu þá er ljóst að tilefni er til að gera enn betur í þessu málaflokki. Góður árangur næst með samstilltu átaki sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Umhverfismálin eru mál framtíðarinnar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2018.