Categories
Greinar

Dramb er falli næst í pólitík, Þorsteinn Víglundsson

Deila grein

07/06/2018

Dramb er falli næst í pólitík, Þorsteinn Víglundsson

»Hér er á ferðinni ríkisstjórn sérhagsmuna, íhaldsstjórn, ríkisstjórn þriggja Framsóknarflokka.« Bein tilvitnun í ræðu Þorsteins Víglundssonar í Eldhúsdagsumræðum frá Alþingi. Síðan ræðir Þorsteinn mjög um átökin milli alþjóðahyggju og þjóðernishyggju, frjálslyndis eða íhaldsmennsku og hann eignar Viðreisn Jón Sigurðsson, frelsishetju okkar Íslendinga.

Þegar maður hefur horft á pólitíska umræðu, ég vil segja í veröldinni allri í áratugi, sér maður að versti ókostur stjórnmálamanna er hrokinn og fyrirlitning öðrum sýnd og sjálfsvissa um eigið ágæti. Hjá hinum fornu Grikkjum var hroki og dramb (húbris) talinn versti eiginleiki mannsins. Þegar einhver upphóf sjálfan sig umfram það sem hann átti inni fyrir, gerði meira úr sjálfum sér en efni stóðu til.

Ég horfði eins og oft áður á Eldhúsdagsumræður frá Alþingi, þar var eins og jafnan áður margt vel sagt og annað að mínu viti verra. Mér fannst t.d. að myndarlegur þingmaður, Þorsteinn Víglundsson í Viðreisn, örugglega vel gefinn maður, sýna fádæma hroka. Ræða hans var að hluta tilvitnanir og úrklippur úr ræðum og skrifum Jóns Sigurðssonar forseta, mannsins sem varð frelsishetja Íslands, hann talaði eins og Jón væri flokksmaður Viðreisnar, væri hann enn á meðal vor.

En Viðreisn er flokkur stofnaður um eitt málefni, að ganga í ESB og taka upp evru. Jón Sigurðsson er okkar afreksmaður fyrir að hafa með rökum frelsað okkur undan danska kónginum og úr því ESB sem þá var uppi. Merkilegt, hér verða til nýir flokkar eins og Viðreisn og Björt framtíð sem staglast á eigin ágæti. Þeir eru flokkar alþjóðahyggju og frjálslyndis meðan einhver vondur »fjórflokkur,« haldinn »framsóknarmennsku«, sem er nýtt slagorð eða áróðursbragð um menn af verri endanum. Menn sem stjórna öllum »Fjórflokknum,« svona vondur andi. Þetta eru svona orðaleppar eins og Ólafur á Hrísbrú hafði um alla prestana á Mosfelli í Innansveitarkróniku Laxness, en hann nefndi þá gjarnan sem hóp: »Þessir andskotar«.

Þekktu sjálfan þig, Þorsteinn, og flokkinn þinn. Hvað hefur svo gerst? Báðir þessir flokkar komust í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem að mínu viti er ágætismaður. Björt framtíð hélt miðilsfund um miðja nótt og taldi sig eiga þjóðina að baki sér og réðst ódrengilega að forsætisráðherranum fyrrverandi. Þjóðin svaraði, flokkurinn dó í kosningunum. Viðreisn fylgdi Bjartri framtíð með svigurmælum um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson. Hvað gerðist? Þeir voru við dauðans mörk þegar að kosningum kom. En þá gripu þeir til mannfórna, stofnanda og formanni flokksins, Benedikt Jóhannessyni, var steypt fyrir björg, sennilega vond lykt af honum, of skyldur hinum framsæknu og duglegu Engeyingum. Kratinn úr landbúnaðarráðuneytinu, vinkona mín Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, tók við af því hversu »alþjóðleg og frjálslynd«, hún er og hafði verið, eins og fíll í glervörubúð atvinnuvegaráðuneytisins og bar þar litla virðingu fyrir elstu atvinnugreinum landsins, landbúnaði og sjávarútvegi. Enda var hún í girðingunni með heildsölum og Högum en ekki bændum, vildi færa fórnir fyrir innflytjendur sérstaklega, eða þannig virkaði hún í starfi sínu sem ráðherra. Og þessi stórmerki flokkur rétt marði það að fá fjóra þingmenn kjörna.

Ætli þjóðin sé svona illa að sér eða bara »vitlaus«. Eða voru þetta makleg málagjöld þessara nýju flokka vegna drambsins?

En kinnroðalaust þorum við framsóknarmenn í mannjöfnuð við alla aðra flokka með þá afburðaforystumenn sem Framsóknarflokkurinn hefur haft á að skipa í hundrað ára sögu sinni. Það er ekki sagt öðrum flokkum til niðrunar því þeir áttu líka sína afburðamenn. Þess vegna eiga menn ekki að hlusta á svona dramb og hroka sem henti Þorstein Víglundsson. Grikkirnir sögðu líka »þekktu sjálfan þig«. Og frelsarinn benti á bjálkann í auga hrokagikksins.

Guðni Ágústsson.

Höfundur er fyrrv. alþingismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júní 2018.