25 ára samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, staða öryggis- og varnarmála, málefni flóttamanna og mannréttindi í Tyrklandi voru meðal þess sem rætt var á fundi utanríksráðherra landanna sem lauk í Riga í Lettlandi fyrir stundu. Fundurinn var haldinn undir hatti NB8 – Nordic Baltic Eight – sem er samstarfsvettvangur átta ríkja við Eystrasalt og á Norðurlöndum.
,,Samstarf þessara þjóða er afar mikilvægt. Við deilum gildum og höfum að jafnaði viðlíka afstöðu til helstu mála á alþjóðavettvangi. Okkar rödd heyrist hátt þegar við tölum einum rómi,” segir Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra.
Á fundinum minntist Lilja stuðningsyfirlýsinga Íslands við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, en í dag eru 25 ár síðan stjórnmálasambandi var komið á milli þjóðanna. Utanríkisráðherrar Íslands, Eistlands, Lettlands og Litháen undirrituðu yfirlýsingu þess efnis í Höfða í Reykjavík 26. ágúst 1991 og síðan hefur samband þjóðanna verið sterkt. Lilja færði utanríkisráðherrum landanna ljósmynd frá undirrituninni í Höfða að gjöf.
Á fundinum í Riga var ennfremur fjallað um niðurstöður leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var í síðasta mánuði. Þá voru helstu mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til umræðu, þar sem ráðgert er að halda sérstakan fund um málefni flóttamanna samhliða allsherjarþingi SÞ í næsta mánuði. Svíþjóð tekur sæti í öryggisráði SÞ í haust og mun þar m.a. halda á lofti sjónarmiðum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Staða mála í Úkraínu og Sýrlandi voru sömuleiðis til umfjöllunar.
Heimild: www.utanrikisraduneyti.is