Categories
Fréttir

Áhugi á beinu áætlunarflugi milli Íslands og Japan

Deila grein

24/08/2016

Áhugi á beinu áætlunarflugi milli Íslands og Japan

LDA2Vinna við gerð tvísköttunarsamnings, samstarf á sviði auðlinda- og orkumála og áhuginn á gerð loftferðasamnings var meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, ræddi í dag við hóp japanskra þingmanna sem staddir eru hér á landi. Tilefni heimsóknarinnar er 60 ára afmæli stjórnmálasambands milli Japans og Íslands.
Á fundinum var einnig rætt um samskipti landanna og samstarf á sviði alþjóðamála, viðskipta og menningar. Þar hafa löndin átt áralangt og gott samstarf og er Japan eitt af helstu viðskiptalöndum Íslands. Gagnkvæmur áhugi þjóðanna á að styrkja þessi samskipti enn frekar var ítrekaður í sérstakri yfilýsingu sem utanríkisráðherrar landanna undirrituðu árið 2014 og er nú unnið að því. Mikill áhugi er til dæmis fyrir því að koma á beinu áætlunarflugi milli landanna, en bæði íslensku millilandaflugfélögin búa yfir flugvélum sem gætu flogið til Japans án millilendingar.
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, fagnaði því á fundinum að viðræður um gerð tvísköttunarsamnings milli Íslands og Japan séu hafnar, en íslensk skattayfirvöld telja brýnt að slíkur samningur komist á sem fyrst. Þá voru eldri hugmyndir um gerð fríverslunarsamnings milli Japans og Íslands ítrekaðar og ræddar.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is