Categories
Fréttir

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Deila grein

24/08/2016

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að gera framtíð Reykjavíkurflugvallar að umtalsefni í dag. Það virðist sem betur fer að samstaða sé meðal þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi um að leggja fram þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um flugvöllinn í Vatnsmýri. Ég leyfði mér að vekja athygli á því í byrjun vikunnar að þessi samstaða væri að myndast. Ég fékk þá einkunn frá borgarstjóranum í Reykjavík að þetta væri nú týpískt fyrir stjórnmálamenn sem vilji láta bera á sér. Ég ætla ekki að fara í ágreining við ólympíumeistarann í þeirri grein, en ég ætla samt að láta þess getið að sá sem hér stendur hefur ekki rekið sína pólitík fyrir framan myndavélalinsur að miklu leyti.

Það sem mig langar að fara yfir er að gefið var út afsal í gær sem byggist á samkomulagi sem tveir samfylkingarmenn gerðu 1. mars 2013. Í nýlegum dómi Hæstaréttar kemur fram, með leyfi forseta, í 4. kafla dómsins:

„Ekki var því um kaupsamning um fasteign að ræða samkvæmt 7. gr. laga nr. 40/2002.“

Efnislega þýðir þetta að vinna þarf annan kaupsamning að flugvellinum og hugsanlega verður þá þessi spilda seld fyrir meira en þessar þrjár glerperlur og snafs eins og er í þessum samningi, þetta minnir á Manhattan forðum, því 430 milljónir fyrir þessa spildu er náttúrlega grín, svo því sé haldið til haga.

En ég gleðst yfir því að það sé að myndast samstaða á Alþingi um framtíð flugvallarins. Ég vona að þeir sem stjórna Reykjavíkurborg komi til með að hlusta á þá þjóðaratkvæðagreiðslu meira en þeir hafa gert með 70.000 manna undirskriftir, næststærstu undirskriftasöfnun á Íslandi sem var hér fyrir nokkrum árum og hefur gjörsamlega verið hunsuð af því fólki sem ætlar að reka nýja pólitík og láta þjóðina ráða.“

Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 19. ágúst 2016.