Categories
Fréttir

Mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt glæsilega kjörtímabil

Deila grein

24/08/2016

Mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt glæsilega kjörtímabil

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að lýsa ánægju minni með framgang þingstarfanna. Málefnin hafa verið í forgrunni umræðunnar og skipulag hefur haldið. Þetta vil ég segja vegna þess að afar mikilvægt er að hæstv. ríkisstjórn klári sitt glæsilega kjörtímabil þrátt fyrir að hafa verið stytt í annan endann, að hæstv. ríkisstjórn klári það í samræmi við þann sáttmála sem liggur til grundvallar. Þegar ég tala um málefni, skipulag og glæsilegan árangur þá eru þau dæmi hér daglega á dagskrá. Frumvarp hæstv. menntamálaráðherra er tímamót fyrir námsmenn þar sem nú loksins verða styrkveitingar viðurkenndar og jafnræði virt. Í gær fóru svo til hv. efnahags- og viðskiptanefndar tvö lagafrumvörp sem snúa að stuðningi til kaupa á fyrstu íbúð og breytinga á lánafyrirkomulagi til að fólk geti myndað séreign hraðar og fyrr og lækkað skuldsetningu í húsnæðinu. Þá var samþykkt í gær ríkisfjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma, tímamót að því leyti að þrátt fyrir að hilli undir kosningar er hún hófstillt, ábyrg og til þess fallin að verja þann árangur sem náðst hefur á þessu kjörtímabili sem er líklegast til að verja stöðugleikann sem varað hefur í 30 mánuði samfleytt, halda verðbólgu í skefjum, skapa áframhaldandi jafnan hagvöxt, verja þá miklu kaupmáttaraukningu tekna sem náðst hefur og stuðla að áframhaldandi stöðugri kaupmáttaraukningu sem yrði meira í takt við raunverðmætasköpun og framleiðniaukningu.

Síðar í dag kemur svo fyrir þingið enn einn áfanginn í áætlun stjórnvalda til að auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja með losun fjármagnshafta. Ég gæti nefnt margt fleira til en mikilvægast af öllu er þó hér í lokin að nefna að svigrúmi þessa árangurs verði forgangsraðað í velferðar-, heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið.“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 19. ágúst 2016.