Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, benti á í störfum þingsins á Alþingi í dag, að í skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur áranna 2008-2018 eftir landshlutum, komi fram „að launagreiðslur fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum losuðu um 1 milljarð kr. á síðasta ári og um þriðjungur allra atvinnutekna af fiskeldi féll til á Vestfjörðum. Umfang fiskeldis á landinu er langmest í þeim fjórðungi. Nýjar tölur frá Hagstofunni sýna einnig að fiskeldi á töluverðan hluta af þeim varnarsigri sem hagkerfið er í þessa dagana“.
„Vöxtur síðustu ára hefur fyrst og fremst átt sér stað á Vestfjörðum í sjókvíaeldi og fyrirsjáanlegt er að á næstu árum muni áfram verða mikill uppgangur í laxeldinu þar. Gera má ráð fyrir að fiskeldi geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum á Vestfjörðum innan fárra ára. Í vor voru samþykkt lög um fiskeldi hér á Alþingi. Ein veigamesta breytingin með frumvarpinu er lögfesting á því að Hafrannsóknastofnun meti möguleika á fjölda eldislaxa í ám og gefi út ráðgjöf byggða á því mati sem kallað er áhættumat. Fyrir tveimur árum hélt Hafrannsóknastofnun opinn fund fyrir vestan þar sem nýja áhættumatinu fyrir Ísafjarðardjúp var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti. Síðan þá hefur jörðin farið einn og hálfan hring í kringum sólina. Í lögum er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun gefi út nýtt áhættumat svo fljótt sem auðið er og að tekið verði tillit til mótvægisaðgerða sem ekki hefur verið gert áður. Nú er aðeins örstutt eftir af árinu 2019 og ekki bólar enn á uppfærðu áhættumati.
Virðulegi forseti. Samfélög á Vestfjörðum, og þá sérstaklega í Ísafjarðardjúpi, og á Austfjörðum, bíða eftir uppfærðu áhættumati og vil ég hvetja Hafrannsóknastofnun til að fylgja lögum og gefa út uppfært áhættumat sem allra fyrst þannig að áfram verði hægt að byggja upp fiskeldi í sátt við náttúruna og til hagsbóta fyrir samfélögin,“ sagði Halla Signý.
Categories
„Var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti“
03/12/2019
„Var lofað og það áður en sól væri næst hæst á lofti“