Categories
Fréttir

Var samið á bak við luktar dyr?

Deila grein

15/03/2017

Var samið á bak við luktar dyr?

„Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um jákvæðar fréttir. Ég veit reyndar ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra var að tilkynna að það yrði fánadagur héðan í frá á þessum degi. Þannig byrjaði hann sína ræðu. Þetta eru sannarlega jákvæðar fréttir. Það er rétt að okkur hefur gengið mjög margt rétt á þessari braut allt frá því við lentum í þessu hruni. Það var auðvitað lykilatriði að taka þá stefnu sem gert var 2013 og hvað varðar áætlunina sem sett var í júní 2015, sem hefur verið fylgt af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá er það einfaldlega þannig að allt hefur gengið upp, og reyndar frá fyrri tíma líka. Efnahagslífið hefur líka gengið upp og gengið vel. Það er skýringin á því hversu góð staðan er í dag. Það má hins vegar alveg viðurkenna að það dróst of lengi að halda síðasta útboðið sem haldið var í júní síðastliðið ár. Það hefði mátt koma fyrr vegna þess hve okkur gekk vel í efnahagslífinu, hversu umsnúningurinn varð hraður.
Nú eru væntingar um jákvæð viðhorf og enn aukið traust á íslenskt efnahagslíf, m.a. frá lánshæfismatsfyrirtækjum, sem munu hjálpa okkur inn í framtíðina. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa væntingar til að þessar aðgerðir slái á styrkingu krónunnar. En er það líklegt? Undirliggjandi vandinn er hið háa hávaxtastig sem er hér í landinu og mismunur á vöxtum hér innan lands og í nágrannalöndum. Þannig að vandinn er til staðar. Það mun dragast hér inn áfram fé. Og tækin sem við höfðum áður innan hafta sem Seðlabankinn hafði til að koma í veg fyrir slíkt Carry Trade eða vaxtarmunarviðskipti eru ekki þau sömu, þau virka ekki eins. Ég tek því undir það með hæstv. forsætisráðherra að það eru verkefni sem áfram þarf að sinna. Það er erfiðara að viðhalda stöðunni utan hafta en innan.
Það eru vonbrigði að við þeim spurningum sem við vorum með í gær, um gengið, sviðsmyndir, fengust engin svör. Við erum að fara inn í einhvern óvissutíma. Þess vegna er brýnt að spyrja hæstv. ríkisstjórn og forsvarsmenn: Er eitthvert plan? Er einhver áætlun í gangi?
Það var líka breyting á þessari áætlun frá júní 2015, sem gerð var við þessa aðgerð. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hér á fimmtudaginn um það hvort leynisamningar væru í gangi af því við höfum konsekvent, alltaf, haldið því fram að við værum ekki í neinum samningaviðræðum. Þess vegna var áætlunin sett upp. Þess vegna var stöðugleikaskatturinn settur upp. Það voru ekki samningar.
Hæstv. ráðherra svaraði, með leyfi forseta:
„Hann“ — þ.e. sá sem hér stendur — „vísar hér til fundar sem haldinn var að ég hygg í síðustu viku þar sem var óskað eftir fundi við stjórnvöld. Á þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en fulltrúar þessara vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál.“
Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan í ræðu að engir samningar hafi þá verið gerðir. En voru þá samningaviðræður í gangi? Sagði ráðherra ósatt hérna á fimmtudaginn? Því í gær í fjölmiðlum kom það fram að sent hefði verið tilboð seinni partinn á föstudegi einum og hálfum sólarhring síðar. Á ekki að segja okkur satt hérna í ræðustól Alþingis þegar við spyrjum og viljum fá frekari upplýsingar um það sem hér er
að gerast?
Hér segir hæstv. fjármálaráðherra að hagsmunir almennings hafi verið undir. Ég segi: Við töpuðum trúverðugleika á því að fara og ganga til samninga við vogunarsjóði sem hafa skorað okkur á hólm allt frá upphafi. Það er umdeilt og umdeilanlegt hvort við töpuðum miklum fjármunum. Við töpuðum fjármunum. Er ekki ríkisstjórnin sem nú situr að kvarta yfir því að peninga skorti í innviðauppbyggingu í samgöngumálum, heilbrigðismálum og öðru, 20 milljarða? Var ekki hægt að nota það í þetta? En trúverðugleika töpuðum við alla vega vegna þess að við höfum aldrei samið við þessa aðila. Nú var það gert og það var gert bak við luktar dyr.“
Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi um afnám fjármagnshafta 13. mars 2017.