Categories
Greinar

Bréf frá formanni

Deila grein

17/03/2017

Bréf frá formanni

Ágætu framsóknarmenn á hundrað ára afmælisdegi Tímans!

Það þarf vart að fara mörgum orðum um það að daginn er tekið að lengja og birta og aukin bjartsýni sest að í hugum og hjörtum okkar framsóknarmanna, sem og vonandi landsmönnum öllum. Störfin á Alþingi ganga sinn vanagang, þótt vissulega megi segja að fátt sé um fína drætti, þegar kemur að málum ríkisstjórnarinnar. Þau eru fá. Þingmannafrumvörp eru nokkuð fyrirferðarmikil og við framsóknarmenn höfum látið til okkar taka og vinnum af samviskusemi.

Stærsta mál ríkisstjórnarinnar til þessa, er eftirgjöf til vogunarsjóðanna, sem skyndilega fá nú meira fyrir aurinn en áður var búið að ákveða. Það má með sanni segja, að þarna birtist munurinn á Framsóknarflokknum og ístöðulausri ríkisstjórn; við framsóknarmenn sóttum peninga í þrotabúin og færðum Íslendingum, núverandi ríkisstjórn tekur pening frá Íslendingum og færir útlendingum.

En hvernig sem nú allt veltist í þingsal, breytir það ekki grunnstefinu í starfsemi Framsóknarflokksins. Gildin halda sínu gildi, að öðrum kosti væru þau ekki góð. Baráttan fyrir félagslegu jafnrétti, þar sem manngildi er sett ofar auðgildi, er aldrei lokið. Ég fæ ekki betur séð en herða þurfi róðurinn í þá átt enn frekar, nú þegar ein hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem sést hefur, ræður ríkjum. Hvernig ætti annað að vera, þegar tveir hreinræktaðir hægriflokkar, tengdir traustum ættarböndum, skipta völdunum á milli sín með atbeina flokks sem virðist ekki vita fyrir hvað hann á að standa.

Ríkisstjórnin virðist ætla sér að setja einhvers konar met í óvinsældum. Þriðjungur landsmanna styður hana; fylgi Viðreisnar er 5,5%, Bjartrar framtíðar 5,0%. Það verður að segjast alveg eins og er, að ríkisstjórnin virðist ekki ná að endurspegla niðurstöðu síðustu kosninga.

Þessi staða ætti að verða okkur í Framsóknarflokknum ástæða til að ná betri fótfestu. Til að ræða stöðuna á Alþingi og almennt um stjórnmálaástandið og flokkinn okkar, hyggst ég nú leggja land undir fót og halda fundi með ykkur á komandi dögum og vikum. Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest.

Flokkurinn er fólkið sem í honum er, sama hvaða flokksmaður á í hlut.

Góða helgi.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Bréf til formanni 17. mars 2017.