Categories
Fréttir

Vegna upphlaups um loftslagsmál og matvælaframleiðslu

Deila grein

02/04/2014

Vegna upphlaups um loftslagsmál og matvælaframleiðslu

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknar, var í viðtali við RÚV í gær vegna niðurstaðna skýrslu IPCC, Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kemur út 31. mars. Þetta er í fimmta sinn sem IPCC gefur út viðlíka skýrslu og í fyrsta sinn síðan árið 2007.
Sigmundur Davíð fór yfir að þó svo að fregnir af loftslagsbreytingu séu alvarlegar skapi breytingarnar tækifæri fyrir Íslendinga. Hér verði hægt að auka til muna matvælaframleiðslu og flytja úr landi.
Forsætisráðherra segir að niðurstöður skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna séu afdráttarlausar. „Því miður í samræmi við dekkri spár sem menn hafa verið að skoða á undanförnum árum og áratugum. Augljóslega er þetta á heildina litið neikvætt en í því felast þó tækifæri til að bregðast við þróuninni og bregðast sem best við henni og það eru ekki hvað síst tækifæri sem Ísland hefur.“
Sigmundur Davíð vitnar til bókar eftir Laurence C. Smith þar sem því er spáð að árið 2050 glími ríki nærri miðbaugi jarðar við ýmiss konar vandamál en hagsæld verði í átta löndum á norðurslóðum. „Og Ísland var eitt af þessum átta löndum framtíðarinnar. Bent er á að það séu augljóslega að opnast mjög mikil tækifæri á Norðurslóðum varðandi siglingaleiðir, varðandi olíu og gasvinnslu og önnur hráefni og ekki hvað síst til matvælaframleiðslu.“
Gert ráð fyrir að matvælaverð fari hækkandi

Mannkyni fjölgi um þá 300 þúsund manns á dag. Þá sé að verða viðsnúningur í þróun verðs á mat. „Það skortir vatn, orkan verður dýrari, það skortir landrými, þannig að menn gera ráð fyrir því að matvælaverð muni fara hækkandi um fyrirsjáanlega framtíð á sama tíma og það er sífellt meiri þörf fyrir matvælaframleiðslu vegna þess að eftirspurning er að aukast. Þannig að í þessu liggja tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland. Við erum að kortleggja þetta,“ segir hann.
Ber ekki Ísland einhverja ábyrgð á losun koltvísýring og gróðurhúsalofttegunda með öðrum þjóðum heims og þurfum við ekki að gera eitthvað í því? „Það er alveg rétt við gerum það en á margan hátt er Ísland auðvitað til fyrirmyndar líka í umhverfismálum,“ svarar Sigmundur Davíð.
Orkuframleiðsla hér sé líklega sú umhverfisvænasta í heimi. „Og það má kannski segja að okkur beri skylda til að framleiða enn meira af umhverfisvænni orku,“ sagði Sigmundur Davíð.
Þá þurfi að gera betur í því að knýja bíla og skip með endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum.
Framsókn áður vakið athygli á aukinni þörf á matvælaframleiðslu

Framsókn hefur síðustu ár marg oft bent á þörfina á aukinni matvælaframleiðslu, ekki síst í samhengi við loftslagsvandann, þ.e. að á næstu árum muni hlýnun valda því að erfiðara verði að rækta matvæli á landsvæðum nær miðbaug, en auðveldara á norðurslóðum. Í því felist að Ísland þurfi að taka aukinn þátt í matvælaframleiðslu heimsins. Hér á landi eru miklar vatnsbirgðir sem muni koma heiminum til góða á sama tíma og vatn þverr á öðrum svæðum.

Þingmenn Framsóknar lögðu fram þingsályktunartillögu á Alþingi árið 2011 og aftur árið 2012 um aukna matvælaframleiðslu á þessum grundvelli, sjá hér. Þar segir m.a. í greinargerð:
„Tillagan gerir ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem móti tillögur um aðgerðir til að auka matvælaframleiðslu á landinu á næstu árum. Gert er ráð fyrir því að starfshópurinn fari yfir lagaumgjörð er varðar landbúnað, matvælaframleiðslu og nýtingu lands. Mótaðar verði tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum sem ráðast þurfi í til að ná markmiði þingsályktunarinnar. Nýsköpun, markaðs- og sölumál verði einnig skoðuð sérstaklega og lagðar fram tillögur um aðgerðir.
Landbúnaður og önnur matvælaframleiðsla er og hefur verið mikilvæg atvinnugrein á heimsvísu. Miklir möguleikar felast í að stórauka framleiðslu í íslenskum landbúnaði í ljósi núverandi þróunar matvælaverðs í heiminum, sem drifin er áfram af vaxandi eftirspurn eftir matvælum, loftslagsbreytingum og takmörkuðum aðgangi að lykilauðlindum matvælaframleiðslu heimsins.
Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins var m.a. mótuð stefna í landbúnaðarmálum. Framsóknarflokkurinn vill að staðinn verði vörður um matvælaframleiðslu þjóðarinnar, hvatt verði til nýsköpunar í landbúnaði og leitað leiða til að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem felast í aukinni matvælaframleiðslu hér á landi. Í ljósi þessarar stefnu leggur þingflokkur Framsóknarflokksins fram tillögu um aukna matvælaframleiðslu á Íslandi.“
Í ræðu formanns Framsóknar á haustfundi Framsóknar á Húsavík 2010 var fjallað um þessar áskoranir framtíðarinnar:
sigmundur-david-sdg-Framsokn-Husavik-2010„Hver verður staða Íslands í þessum breytta heimi? Það er erfitt að spá fyrir um hvaða hlutir haldi gildi sínu og hverjir ekki, sumar nauðsynjavörur verða óþarfar og hlutir sem við getum ekki ímyndað okkur núna verða ómissandi. Mörg smáfyrirtæki samtímans verða að stórveldum og mörg stórfyrirtæki sem nú er verslað með í kauphöllunum einskis virði. Sum rík lönd gætu fljótt orðið fátæk og sum fátæk lönd rík. Flestir sem skoða framtíðarþróun heimsins eru þó sammála um að þrennt muni halda gildi sínu. Við munum alltaf þurfa mat, hreint vatn og orku.
Það vill svo til að nákvæmlega þessir þrír hlutir eru helstu auðlyndir Íslendinga. Ekki aðeins framleiðum við matvæli heldur besta form næringar, prótín. Það er víðast nóg til af kolvetnum en prótín er af skornum skammti. Fiskstofnar standa óvíða jafnvel að vígi og á Íslandsmiðum og nú er jarðnæði fyrir búfénað að verða af skornum skammti í heiminum.
Nýleg rannsókn sýnir að á Íslandi er til jafnmikið af hreinu nýtanlegu vatni og í stærstu og fjölmennustu löndum Evrópu. Ársbirgðirnar nema 170 rúmkílómetrum eða 170 billjón lítrum af hreinu vatni. Það er álíkamikið magn og í Þýskalandi og Frakklandi og töluvert meira en í vatnalandinu Finnlandi.
Svo lengi sem lögmál eðlisfræðinnar halda verður orka ekki til úr engu en af henni eigum við mikið, ekki í formi kola sem eyðast og menga andrúmsloftið, heldur hreinni endurnýjanlegri orku. Hver Íslendingur framleiðir 54 megavattstundir af raforku. Rúmlega tvöfalt meira en þeir sem koma næst á eftir, norðmenn, fjórfalt meira en Bandaríkjamenn, sexfalt meira en Japanar og áttfalt meira en Bretar.
Ál er orka í föstu formi, bundin í léttan, sterkan umhverfisvænan málm. Jafnvel þótt léttari og sterkari gerviefni kunni hugsanlega að leysa álið af eftir einhverja áratugi munum við enn eiga orkuna og hennar verður þörf, ekki síður en nú.
Auðlindir okkar eru því vörur sem skortur er á í heiminum og sá skortur mun aðeins aukast. Framtíð okkar er undir því komin að okkur takist að verja þessar auðlyndir og leggja rækt við þær.
Fyrir nokkrum vikum kom út bók í bandaríkjunum sem vakti mikla athygli í þarlendum fjölmiðlum. Bókin er eftir þekktan prófessor í Kaliforníuháskóla Laurance C. Smith og heitir heimurinn árið 2050. Í bókinni rekur höfundurinn hvernig líklegt er að heimurinn þróist á næstu áratugum, ekki hvað síst hvernig verðmæti og vald munu færast til. Þau lönd sem njóta munu mest ávinnings af þeim breytingum, samkvæmt bókinni, eru Kanada, Norðurlönd og ekki hvað síst Ísland. Megin niðurstaða bókarinnar er sú að bæði auður og áhrif muni í auknum mæli færast á norðurslóðir.
Með fyrirsjáanlegri hlýnun jarðar spillist jarðnæði sunnar á hnettinum á meðan norðurslóðir verða kjörlendi landbúnaðar. Fólk og fyrirtæki mun sækja norður á bóginn. Aukinn samfélagslegur órói, þverrandi auðlyndir og óstöðugt veðurfar í ríkjum sunnar á jarðkringlunni gerir lífið á norðurslóðum enn eftirsóknarverðara … í Kanada, á Norðurlöndum og ekki hvað síst á Íslandi.
Gríðarmiklar ósnertar auðlindir á landi og í sjó, sem áður voru óaðgengilegar, verða nýtanlegar.
Siglingarleiðin yfir norðurskautið opnast og gerir Ísland að miðpunkti í flutningaleiðum heimsins. Það gefur landinu einstakt tækifæri sem umskipunarmiðstöð.
Því fylgja þjónusta, verksmiðjur og samsetningariðnaður þar sem hráefni er flutt frá öllum heimshornum, unnið og raðað saman og flutt í allar áttir. Þetta er reyndar ekki í fjarlægri framtíð. Þetta er þróun sem þegar er að hefjast og við verðum að passa okkur að missa ekki af.
Skortur á vatni og landbúnaðarvörum mun enn bæta samkeppnisstöðu norðurslóða. 70% af því vatni sem nýtt er í heiminum rennur ekki til borga, það er ekki drukkið, það fer ekki í baðkör eða í verksmiðjur heldur til landbúnaðarframleiðslu.
Sunnar á jörðinni þarf að vökva akra linnulaust. Það þarf 1000 tonn af vatni til að rækta eitt tonn af korni. Mörg lönd geta ekki lengur með góðu móti séð af vatni í slíka ræktun.“