Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir eitt það áhugaverðasta sem forstýra stofnunar Sameinuðu þjóðanna um landnýtingu hafi séð sé verkefnið „Bændur græða landið“. Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook.
Því þyki Sigurði Inga skjóta skökku við að landgræðslustjóri velji að vera í stöðugu stríði við sína bestu liðsmenn, það sé ekki vænlegt til árangurs. „Nær væri að endurnýja kynnin við BGL-verkefnið og nýta sér jákvætt viðhorf bænda til landgræðslu – samvinnu og samstarf við þá í staðinn fyrir stríðsæsing,“ segir Sigurður Ingi.
„Bændur græða landið“ hefur verið í gangi í 30 ár og taka um 600 bændur þátt. Sagði forstýra stofnunar Sameinuðu þjóðanna um landnýtingu að virkni bændanna væri lykilatriði – þeirra samvinna, áhugi og þekking.
Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður og bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, sagði m.a. í viðtali við RUV í vetur, að sauðfé sé ekki sleppt eitthvað út í buskan og að það sé ekki ofbeit vegna núverandi búskaparhátta.
Sigurður Ingi lætur fylgja með færslu sinni ljósmyndir frá síðasta sumri af heiðum og afréttum.