Categories
Fréttir

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

Deila grein

23/08/2016

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í athyglisverða grein hagfræðings VR sem birtist á vefmiðli Kjarnans þar sem tilteknar eru þrjár meginástæður fyrir lágri verðbólgu, í fyrsta lagi lágt olíuverð, í öðru lagi gengisstyrking krónunnar og í þriðja lagi lágt verð á öðrum hrávörum en olíu.

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd Seðlabankans hefur gert ráð fyrir. Þeirri spurningu er velt upp í annarri grein á vefmiðli Kjarnans hvað peningastefnunefndin geri þegar kemur að næstu ákvörðun stýrivaxta. Meginstýrivextir nú eru 5,75% og verðbólgan 1,1% sem þýðir að raunvextir hér á landi eru hvergi hærri í heiminum og fátt sem bendir til þess að verðbólgan fari af stað eða að sú staða breytist í náinni framtíð ef marka má forsendurnar sem ég fór yfir. Því verður fróðlegt að sjá hvernig peningastefnunefndin bregst við þessari stöðu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að vissulega skipta vextir almenning og atvinnulíf gríðarlegu miklu máli. Ekki má gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í að viðhalda hér verðstöðugleika og gera má ráð fyrir að peningastefnunefnd stígi varlega til jarðar en staðreyndin er sú varðandi hið háa verð á peningum, og endurspeglast í þessum háu raunvöxtum, að almenningur og atvinnulíf fjármagnar stöðugleikann með háu verði. Þetta gagnast auðvitað vel þeim sem eiga laust og meðfærilegt fé til ávöxtunar.

Hvað mun peningastefnunefndin gera? Mun hún einblína áfram á að halda neyslu og lántöku niðri með háum stýrivöxtum, sem reyndar bíta fyrst og fremst á lán sem lúta því fyrirkomulagi að fylgja nafnvöxtum Seðlabankans, þ.e. óverðtryggðum lánum, eða mun hún meta verðbólguvæntingar í takt við forsendur, líkt og ég fór yfir í upphafi máls míns?“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016