Categories
Fréttir

Verðtryggð lán hækkað meira en þyrfti

Deila grein

17/08/2016

Verðtryggð lán hækkað meira en þyrfti

Þorsteinn-sæmundsson„Fleiri og fleiri stíga nú fram og taka undir það sem haldið hefur verið fram í nokkurn tíma að stýrivextir Seðlabanka Íslands séu allt of háir. Seðlabankinn hefur undanfarin missiri ofmetið verðbólgu og verðbólguvæntingar svo prósentum skiptir, fyrir utan það að mæla verðbólgu með öðrum hætti en gert er í öllum öðrum löndum OECD, þ.e. með því að hafa fasteignaverð inni í verðbólgumælingum. Það kemur nú í ljós hvern mánuðinn eftir annan, í þeim stöðugleika sem komist hefur á undir ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að einu verðbólguvæntingarnar í landinu eru í kolli þeirra sem vinna í Seðlabankanum. Það er ekki þolandi að hvern mánuðinn eftir annan skuli stýrivextir á Íslandi vera 5,75%, eða í raun 6,5 sem er presenterað út á við, þegar verðbólga er um og innan við 1%. Þetta hefur viðgengist síðustu missiri; bæði er verðbólgumælingin röng og stýrivextirnir svona háir. Það hefur valdið því að verðtryggð lán sem flest heimili á Íslandi eru með hafa hækkað miklu meira en þyrfti og hefði átt að vera. Þetta er allt saman í boði Seðlabankans.

Síðast í morgun var útvarpsviðtal við Ólaf Margeirsson, doktor í hagfræði, í þættinum Í bítið á Bylgjunni þar sem hann sagði að stýrivextir á Íslandi ættu að vera um það bil 2% lægri en þeir eru nú. Það hlýtur að þurfa á einhverjum tímapunkti að koma til þess að seðlabankastjórnin hætti að lemja hausnum við steininn, þó að hausinn sé þykkur, og halda uppi stýrivöxtum sem eru algjörlega úr öllum takti við raunveruleikann.“

Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.