Categories
Fréttir

Verðtryggingarnefnd klofnaði

Deila grein

29/01/2014

Verðtryggingarnefnd klofnaði

STOPPSérfræðingahópur um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum, sem forsætisráðherra skipaði þann 16. ágúst 2013, hefur skilað skýrslu sinni. Í skýrslu hópsins er lagt til að frá og með 1. janúar 2015 verði tekin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána með því að:

  • óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
  • lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár,
  • takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og
  • hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Mikilvægt er að draga úr vægi verðtryggðra jafngreiðslulána. Slíkt mun styðja við fjármálastöðugleika til langs tíma, efla virkni stýrivaxta Seðlabankans og byggja undir jafnvægi í hagkerfinu. Greiðsluferill 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána veldur hættu á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og eykur heildarvaxtakostnað yfir lánstímann þar sem verðbótum er velt yfir á höfuðstólinn. Þessi ókostur lánanna ágerist eftir því sem lánstíminn er lengri.
Helstu áhrif afnáms langra verðtryggðra jafngreiðslulána á neytendur eru hækkuð greiðslubyrði og erfiðara aðgengi að lánsfé fyrir tekjulága hópa. Því þarf að koma til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur með aðgerðum eins og betur skilgreindum vaxtabótum, skattaafslætti og úttekt séreignarlífeyrissparnaðar.
Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. Engar hömlur hafa verið settar á verðtryggingu frá árinu 1998 þrátt fyrir vilja og fyrirheit þar um. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru því fyrstu takmarkanir á notkun verðtryggingar í langan tíma.
Fullt afnám verðtryggingar nýrra neytendalána krefst hins vegar meiri tíma og yfirlegu. Án vandaðs undirbúnings gæti afnám ógnað fjármálastöðugleika og rýrt stöðu neytenda og lánveitenda. Forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu eru einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðalánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið. Að þessu er nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og mikilvægt að sú vinna gangi greiðlega.
Lagt er til að stjórnvöld hefji eigi síðar en á árinu 2016 vinnu við að meta reynslu af þessum stóru skrefum, sem hér eru lögð til, í átt að afnámi verðtryggingar og móti í framhaldinu áætlun um fullt afnám.
Forsætisráðherra skipaði sérfræðingahópinn 16. ágúst 2013. Í honum áttu sæti eftirfarandi:

  • Ingibjörg Ingvadóttir, hdl., formaður
  • Helga Hlín Hákonardóttir, hdl.
  • Iða Brá Benediktsdóttir, viðskiptafræðingur
  • Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneytinu
  • Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur
  • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

Allir fulltrúar sérfræðingahópsins sameinast um þessar niðurstöður nema Vilhjálmur Birgisson sem skilaði sinni eigin skýrslu. Í skýrslu sinni leggur Vilhjálmur til að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014 og gripið verði samhliða til ýmissa mótvægisaðgerða. Þá leggur hann til að böndum verði komið á vexti og verðtryggingu eldri verðtryggðra lána, að rannsakað verði hver raunverulegur vísitölubjagi er við útreikning verðbólgu og að stjórnvöld láti gera óháða rannsókn á íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Sjá einnig: