Categories
Fréttir

„Við ætlum að snúa vörn í sókn og byggja upp framúrskarandi menntakerfi“

Deila grein

23/01/2019

„Við ætlum að snúa vörn í sókn og byggja upp framúrskarandi menntakerfi“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fór yfir sviðið í stjórnmálunum í umræðum á Alþingi í fyrradag, en til umræðu var munnleg skýrsla forsætisráðherra, að loknu jólaleyfi þingsins.
Sigurður Ingi hóf ræðu sína á umræðu um samgöngur. Markmið með metnaðarfullri samgönguáætlun verður ekki mælt í kílómetrum heldur mannslífum og lífsgæðum. Til að stuðla að fækkun slysa og auka umferðaröryggi er áhrifaríkast af ýmsum leiðum að endurbæta vegakerfið sem lætur víða á sjá í kjölfar aukinnar umferðar og þungaflutninga, m.a. vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Sambærileg framlög á undanförnum árum mæta engan veginn uppsafnaðri þörf til að breikka og tvöfalda vegi til að mæta aukinni umferð og tekjur af ökutækjum og eldsneyti renna að langstærstum hluta til vegagerðar, en spár gera ráð fyrir að með aukinni nýtingu annarra orkugjafa muni þær minnka á næstu árum. Þess vegna er horft til þess að ný leið í fjármögnun sé að fólk greiði í vaxandi mæli fyrir notkun sína með beinum hætti.

Fram kom hjá Sigurði Inga að ríkisframlög til samgangna yrðu rúmlega 600 milljarðar á næstu 15 árum. Til viðbótar er gert ráð fyrir öðrum leiðum og þær fjármögnunarleiðir yrðu kynntar síðar.
Starfshópar hafa unnið að uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, um eflingu innanlandsflugs og uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og tillögur er miða að hraða einstökum framkvæmdum með því að nýta nýjar fjármögnunarleiðir að hluta eða öllu leyti. Einnig var unnið að að móta tillögur um fjármögnun vegakerfisins til lengri tíma vegna orkuskipt.
Við höfum jafnframt verið að vinna að framkvæmd byggðaáætlunar sem var samþykkt á síðasta ári. Unnið er hörðum höndum að því að hrinda henni í framkvæmd. Það er metnaðarfull áætlun sem felur í sér 54 tilgreindar aðgerðir sem nær öll ráðuneyti bera ábyrgð á og koma við sögu en mjög margir framkvæmdaraðilar koma þar einnig að.
Sjáum fram á yfirvofandi skort á kennurum
Ríkisstjórnin hefur einsett sér að styrkja umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum, stuðla að viðurkenningu á störfum þeirra og efla faglegt sjálfstæði. Unnið hefur verið að tillögum af miklum krafti innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samstarfi við skólasamfélagið og það styttist í að þeim verði hrint í framkvæmd.
Við ætlum að snúa vörn í sókn og byggja upp framúrskarandi menntakerfi. Við sáum jákvæð teikn á lofti sl. haust þegar umsóknum um kennaranám tók að fjölga talsvert, en við þurfum að gera betur. Við erum einnig að efla verk-, iðn- og starfsnám með fjölþættum aðgerðum. Í því felst að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og auka aðgengi að náminu. Til að mynda voru efnisgjöld felld niður og við erum að fjárfesta í betri aðstöðu og kynna betur þá fjölbreyttu náms- og starfskosti sem í boði eru.
Breytt framfærslukerfi almannatrygginga
Nýtt félagsmálaráðuneyti tók til starfa 1. janúar við uppskiptingu velferðarráðuneytisins. Þau verkefni sem þar eru í gangi eru margvísleg og sum hver risavaxin. Má nefna vinnu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Kerfinu er ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og starfsendurhæfingu með þverfaglega nálgun að leiðarljósi. Í framhaldinu verða væntanlega gerðar breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyri almannatrygginga í samræmi við tillögur samráðshópsins.
Ýmsir hópar eru að störfum, m.a. hópar sem auka við snemmtæka íhlutun, að starfsemi fíkniúrræða fyrir börn og ungmenni verði efld og fram undan er bygging nýs meðferðarheimilis fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda og hugmynd að svokölluðu lágþröskuldarúrræði þar sem börn og ungmenni getað leitað án þess að hafa fengið sérstakar tilvísanir í því skyni að grípa fyrr og hraðar inn í.
Þá eru fleiri starfshópar, hópur sem á að útfæra sértækar aðgerðir til að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þá er við störf starfshópur sem á að leggja fram tillögur að úrbótum, hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti fyrir barnshafandi konur á landsbyggðinni. Kynntar hafa verið breytingar um hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Móttaka flóttafólks hefur verið samræmd, Fjölmenningarsetrið hefur verið eflt og margt fleira.
Létta skattbyrði af lágtekju- og millitekjufólki
Stóru málin sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir eru kjaraviðræðurnar og húsnæðismálin. Það að létta skattbyrði af lágtekju- og millitekjufólki er eitthvað sem við ætlum að kynna á morgun fyrir aðilum vinnumarkaðarins. Það eru mál er varða verðtrygginguna, húsnæðisliðinn í vísitölunni og fleira sem væri áhugavert að ræða á þessum fundi en tími minn dugir ekki til þess frekar núna.