Categories
Fréttir

„Við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara“

Deila grein

07/02/2023

„Við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara“

Halldóra K. Hauksdóttir, varaþingmaður, flutti jómfrúrræðu sína í störfum þingsins. Hún er eggjabóndi og starfar sem lögmaður á velferðarsviði Akureyrarbæjar.

„Sem varaþingmaður hef ég hingað til aðallega gegnt hlutverki áhorfanda og fylgst glöggt með gangi mála. Við að fylgjast með hef ég lengi velt fyrir mér skilvirkni þingsins og vil varpa þeirri spurningu fram hvernig við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara og þannig náð betri árangri fyrir samfélagið allt,“ sagði Halldóra.

Segir hún að vanti fyrirbyggjandi aðgerðir til að breyta og bæta til framtíðar en orkan fari í að bregðast við aðstæðum. Gott fordæmi um fyrirbyggjandi aðgerðir er vinna mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar.

„Einnig vil ég nýta tækifærið og ræða íslenskan landbúnað, en það er umræða sem oft er á villigötum í samfélaginu. Landbúnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga þótt oft sé sú grein vanmetin.“

„Ýmsir gefa í skyn að búvörusamningurinn sé bæði dýr og ólöglegur þótt hann sé gífurlega mikilvægur fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Enn eitt dæmi um vanmat þrátt fyrir kröftuga vinnu og þrautseigju íslenskra bænda. Einnig hefur oft verið reynt að telja fólki trú um að innlendar landbúnaðarvörur séu óeðlilega dýrar en staðreyndin er sú, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, að íslensk fjölskylda eyðir 12–13% í matvæli sem hlutfall af heildarútgjöldum heimila sem er sambærilegt nágrannaríkjum okkar og töluvert lægra en meðaltal innan ESB-ríkjanna. Það er því greinilega margt sagt um íslenskan landbúnað sem er ekki á rökum reist,“ sagði Halldóra að lokum.


Ræða Halldóru í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er mikill heiður að fá að halda jómfrúrræðu mína hér á Alþingi. Ég heiti Halldóra Hauksdóttir, ég er búsett á Akureyri, ég er eggjabóndi og starfa sem lögmaður á velferðarsviði Akureyrarbæjar. Sem varaþingmaður hef ég hingað til aðallega gegnt hlutverki áhorfanda og fylgst glöggt með gangi mála. Við að fylgjast með hef ég lengi velt fyrir mér skilvirkni þingsins og vil varpa þeirri spurningu fram hvernig við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara og þannig náð betri árangri fyrir samfélagið allt. Miklum tíma og mikilli orku er eytt í að bregðast við aðstæðum í stað þess að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir, breyta og bæta til framtíðar. Sem dæmi um slíkt má nefna málefni barna og fjölskyldna, málefni sem stendur mér nærri sem starfsmanni í velferðarþjónustu. Þar hefur hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sýnt gott fordæmi með fyrirbyggjandi breytingum til betri framtíðar. Það er engin launung að við getum víða gert betur.

Einnig vil ég nýta tækifærið og ræða íslenskan landbúnað, en það er umræða sem oft er á villigötum í samfélaginu. Landbúnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga þótt oft sé sú grein vanmetin. Ýmsir gefa í skyn að búvörusamningurinn sé bæði dýr og ólöglegur þótt hann sé gífurlega mikilvægur fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Enn eitt dæmi um vanmat þrátt fyrir kröftuga vinnu og þrautseigju íslenskra bænda. Einnig hefur oft verið reynt að telja fólki trú um að innlendar landbúnaðarvörur séu óeðlilega dýrar en staðreyndin er sú, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, að íslensk fjölskylda eyðir 12–13% í matvæli sem hlutfall af heildarútgjöldum heimila sem er sambærilegt nágrannaríkjum okkar og töluvert lægra en meðaltal innan ESB-ríkjanna. Það er því greinilega margt sagt um íslenskan landbúnað sem er ekki á rökum reist.“