Categories
Fréttir Greinar

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Deila grein

01/10/2025

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) er öflugur málsvari og drifkraftur byggðaþróunar.

SSA er málsvari sveitarfélaganna á Austurlandi gagnvart ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum. Sambandið stendur vörð um hagsmuni svæðisins í umræðum um byggðamál, verkefnaflutninga og jöfnun á búsetuskilyrðum milli landshluta. Sambandið er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn á svæðinu til að skiptast á skoðunum, eiga samtal og vinna sameiginlega að verkefnum.

Vegvísir að sameiginlegri framtíð

Árið 2022 var svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 samþykkt af sveitarstjórnum allra sveitarfélaga á Austurlandi. Svæðisskipulag er mikilvægt stjórntæki sem markar sameiginlega framtíðarsýn Austfirðinga fyrir næstu áratugi. Það er stefnumarkandi langtímaáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Svæðisskipulagið er meira en bara áætlun, það er leiðarljós fyrir allt samfélagið á Austurlandi. Með því að marka skýra stefnu um uppbyggingu atvinnu, innviða og ferðaþjónustu hjálpar skipulagið til við að laða að nýja íbúa og fyrirtæki og styrkja núverandi samfélag.

Í svæðisskipulagi Austurlands kemur fram að mikilvægt sé að unnið verði að því að bæta vegi, gera jarðgöng og breikka brýr til að stytta leiðir og auka öryggi. Áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Samhljóða samþykktar bókanir

Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað bókað um hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og má finna bókanir þess efnis áratugi aftur í tímann. Í bókun aðalfundar allt frá árinu 2007 segir: Fundurinn lítur svo á að Norðfjarðargöng verði fyrsti hluti svokallaðra Miðfjarðaganga sem eru jarðgöng frá Eskifirði um Norðfjörð, Mjóafjörð, Seyðisfjörð til Héraðs.

Árið 2008 er síðan samþykkt að aðalfundurinn lýsi yfir fullum stuðningi við baráttu Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum á milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Bókanir á aðalfundum SSA eru áþekkar árum saman og er smám saman gengið lengra eftir því sem ný Norðfjarðargöng og göng í öðrum landshlutum, s.s. Dýrafjarðar- og Vaðlaheiðargöng, komast á undirbúnings- og framkvæmdarstig.

Áherslur sveitarfélaganna á Austurlandi um næstu göng voru og eru skýrar: Fjarðarheiðargöng eiga að vera næstu göng á Austurlandi. Þung áhersla hefur verið lögð á að hönnun ganga frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar fari fram samhliða vinnu við Fjarðarheiðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Við tölum skýrt

Haustþing SSA krefst þess að ráðist verði tafarlaust í hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og í löngu tímabærar úrbætur á Suðurfjarðavegi og Öxi í samræmi við áherslur svæðisskipulags Austurlands 2022-2044.

Haustþing SSA ítrekar jafnframt gagnvart núverandi stjórnvöldum að Austurland sé næst í röðinni hvað varðar jarðagangauppbyggingu. Það er ólíðandi að stjórnvöld reyni að komast undan þeirri ábyrgð með því að draga fram gömul þrætuepli í tilraunum sínum til að fjármagna uppbyggingu annars staðar á landinu.

Kæru þingmenn og ráðherrar, það er ekki hægt að vera skýrari í máli. Það er skýlaus krafa okkar að þið talið okkar máli og hlustið á okkar samhljóða samþykktar ályktanir.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fulltrúi á haustþingi SSA á Vopnafirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2025.