Categories
Fréttir

„Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar ‒ mannúðin verður að sigra“

Deila grein

14/12/2023

„Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar ‒ mannúðin verður að sigra“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, tók þátt í umræðu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, vegna munnlegrar skýrslu utanríkisráðherra, á Alþingi. Sagðist hann hafa þá trú að Ísland geti haft áhrif með því að bjóða fram mannúðaraðstoð, með því að taka á móti kvótaflóttafólki frá Palestínu og með því að bjóða fram vettvang fyrir friðarviðræður.

„Við í Framsókn studdum viðurkenningu sjálfstæðrar Palestínu á Alþingi Íslendinga árið 2011 og við studdum tveggja ríkja lausnina. Við trúum á tveggja ríkja lausnina. Forystumenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því að hitta og hlusta á forystumenn Palestínu. Við fordæmum allt ofbeldi. Við fordæmum þegar hryðjuverkamenn ráðast á saklaust fólk. Við virðum rétt ríkja til að verja sig eins og stuðningur okkar við Úkraínu sýnir. Við virðum réttinn til sjálfsvarnar en við fordæmum viðbjóðslegar árásir á saklaust fólk og börn á Gaza. Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar,“ sagði Sigurður Ingi.

„Ísland talar fyrir friði og lýðræði á alþjóðavettvangi. Við verðum að tala fyrir friðarviðræðum, fyrir því að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, halda samtalinu opnu milli þeirra, milli okkar og þeirra og að samtalsleiðirnar séu opnar. Við verðum að þrýsta á bandalagsþjóðir okkar, Evrópuþjóðir og Bandaríkin, um að þessum hræðilegu árásum linni.“

„Ísland talar fyrir friði og lýðræði á alþjóðavettvangi. Við verðum að tala fyrir friðarviðræðum, fyrir því að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, halda samtalinu opnu milli þeirra, milli okkar og þeirra og að samtalsleiðirnar séu opnar. Við verðum að þrýsta á bandalagsþjóðir okkar, Evrópuþjóðir og Bandaríkin, um að þessum hræðilegu árásum linni. Við getum ekki horft upp á þúsundir barna drepnar. Mannúðin verður að sigra,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.


Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hv. þingheimur. Við höfum öll fylgst með hryllingi sem nú geisar fyrir botni Miðjarðarhafs. Saklaust fólk hefur týnt lífi sínu í þúsundatali. Þar af er samkvæmt fréttum stór hluti fórnarlambanna börn. Við þekkjum flest þá tilfinningu að missa, þekkjum hvernig sorgin og angistin heltekur okkur þegar einhver nákominn fellur frá. Það er hins vegar erfiðara að reyna að setja sig í spor fólks sem hefur misst ættingja og ástvini í hryðjuverkaárás eða þegar hermenn láta byssukúlum og sprengjum rigna yfir heimili þess. Það er erfiðara að ímynda sér tilfinninguna þegar einhver nákominn hefur verið tekinn í gíslingu. Ég get ímyndað mér sorgina en ég get ekki ímyndað mér heiftina, heiftina sem hefur byggst upp í hugum og hjörtum fólks í áratugi, heiftina sem sprettur af ótta við næstu nágranna.

Ísland hefur í utanríkismálum haft þá stefnu að standa með vina- og bandalagsþjóðum okkar í Evrópu og Bandaríkjunum. Sérstaklega hefur samband okkar við Norðurlandaþjóðirnar verið mikilvægt. Norðurlöndin eru líka fyrirmynd í heiminum þegar kemur að velferð og friðsæld. Við í Framsókn studdum viðurkenningu sjálfstæðrar Palestínu á Alþingi Íslendinga árið 2011 og við studdum tveggja ríkja lausnina. Við trúum á tveggja ríkja lausnina. Forystumenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því að hitta og hlusta á forystumenn Palestínu. Við fordæmum allt ofbeldi. Við fordæmum þegar hryðjuverkamenn ráðast á saklaust fólk. Við virðum rétt ríkja til að verja sig eins og stuðningur okkar við Úkraínu sýnir. Við virðum réttinn til sjálfsvarnar en við fordæmum viðbjóðslegar árásir á saklaust fólk og börn á Gaza. Við krefjumst vopnahlés. Við krefjumst mannúðar, friðar.

Ég er ekki svo oflætisfullur að ég trúi því að íslensk stjórnvöld geti komið á friði fyrir botni Miðjarðarhafs, ekki frekar en við getum lægt ofbeldisöldur í Mjanmar, Jemen, Úkraínu og öllum þeim löndum þar sem hræðileg stríð geisa. En ég trúi því að við getum haft áhrif þegar við tökum saman höndum með vinaþjóðum okkar og ég trúi því að við getum, Íslendingar, lagt okkar af mörkum með því að bjóða fram mannúðaraðstoð, sem við höfum gert með því að skoða að taka á móti kvótaflóttafólki frá Palestínu, með því að bjóða fram vettvang fyrir friðarviðræður.

Ísland talar fyrir friði og lýðræði á alþjóðavettvangi. Við verðum að tala fyrir friðarviðræðum, fyrir því að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji frið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, halda samtalinu opnu milli þeirra, milli okkar og þeirra og að samtalsleiðirnar séu opnar. Við verðum að þrýsta á bandalagsþjóðir okkar, Evrópuþjóðir og Bandaríkin, um að þessum hræðilegu árásum linni. Við getum ekki horft upp á þúsundir barna drepnar. Mannúðin verður að sigra.“