Categories
Fréttir

Tökum höndum saman um að bæta lífskjör!

Deila grein

15/12/2023

Tökum höndum saman um að bæta lífskjör!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, gerði samþykkt fjárlaga 2024 að umtalsefni í störfum þingsins. Sagði hún verkefnið geta verið krefjandi á tímum óvissu, bregðast verði við þörfum og gera ráð fyrir hinu óvænta.

„Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtastig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við erum að samþykkja núna fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi,“ sagði Halla Signý.

Minnti hún á að staða ríkissjóðs væri sterk og þó svo að ekki sé hægt að hafa stjórn á öllu sem gerist, þá höfum við val um viðbrögð og aðgerðir. „Það er mikilvægt að muna það þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.“

„Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili. Allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningnum með hógværum hækkunum, það er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt og krefjandi á tímum óvissu, bæði hér á landi og í alþjóðlegu samhengi. Að mörgu þarf að huga, bregðast við þörfum og ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænta. Efnahagsleg áhrif í kjölfar heimsfaraldurs voru margvísleg. Það er til marks um hversu kvikk við erum og snörp hversu hratt þjóðarbúið hefur tekið við sér að nýju. Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtastig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við erum að samþykkja núna fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.

Miklum náttúruhamförum á Suðvesturlandi á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er hvergi nærri lokið. Þá ríkir óvissa vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Staða ríkissjóðs er sterk. Við getum tekist á við verkefni sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði. Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir. Það er mikilvægt að muna það þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.

Virðulegi forseti. Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili. Allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningnum með hógværum hækkunum, það er til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt.“