Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

15/12/2023

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru flokksfélagar!

Við höfum öll þörf fyrir skjól og öryggi. Að eiga traustan samastað, eiga heimili og geta farið heim. Heimili eru fjölbreytt og margskonar en eiga það sammerkt að vera griðastaður.

Mikilvæg samstaða hefur ríkt á Alþingi um að vinna að farsælum lausnum, til lengri og skemmri tíma, til að tryggja Grindvíkingum lausnir í húsnæðismálum,  afkomutryggingum tengdar svæðinu en þessi mál hafa verið sett í forgang hjá ríkisstjórninni. Mikil áhersla hefur verið lögð á það að tryggja fjölskyldum heimili áður en hátíðirnar ganga í garð.

Alþingi er nú á loka metrunum fyrir jólaleyfi. Þriðja umræða fjárlaga að ljúka, annarri umræðu bandormsins er lokið, en það frumvarp er til breytinga á ýmsum lögum fjárlaga. Þá fór önnur umræða frumvarps um skatta og gjöld fram í gær og eins er handan við hornið þriðja umræða fjáraukalaga 2023.

Af fjölmörgum góðum málum sem áunnist hafa þetta haust, vil ég sérstaklega nefna mikilvæga áfanga sem náðust fram við fjárframlög til landbúnaðar og þá sérstaklega í þá málaflokka sem styðja við nýliðun í greininni.

Við erum sjaldan minnt jafn sterkt á farsæld þess að lifa í friðsælu landi og þegar stríðsátök blossa upp. Það er ekkert sem snertir okkur á sama hátt og það skelfilega ástand og átök sem ríkja í Palestínu. Öll fordæmum við árásir á börn, konur og almenna borgara í Ísrael og Palestínu. Reglulega hafa málefni Palestínu verið rædd á Alþingi, nú síðast í gær í framhaldi af munnlegri skýrslu utanríkisráðherra, um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs.

Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur verið afdráttarlaus í sínum málflutningi og stefna flokksins er skýr. Við í Framsókn tölum fyrir friðarviðræðum og það gerði Sigurður Ingi þegar hann mælti fyrir hönd þingflokksins á Alþingi í vikunni. Við teljum að Ísland eigi að þrýsta á Evrópuþjóðir og Bandaríkin um að vinna að því að þessum hræðilegu árásum linni. Að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji um frið á grundvelli tveggja ríkja lausnar. Sigurður Ingi ítrekaði að við Íslendingar getum haft bein áhrif með því að bjóða fram mannúðaraðstoð,  með því að taka á móti kvótaflóttafólki frá Palestínu og með því að bjóða fram fundarstað fyrir friðarviðræður.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi talað fyrir stuðningi í málefnum Palestínu og þar hafa verk Framsóknar verið viðamikil og mikilvæg. Steingrímur Hermannsson, þáverandi formaður Framsóknar, var fyrsti utanríkisráðherra Íslands til að taka undir málstað Palestínumanna með afgerandi hætti og gagnrýni á framkomu Ísraelsmanna.

Mátti sjá þess stað í kjölfar harkalegra viðbragða Ísraela við uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum sem braust út í lok árs 1987. Steingrímur tók þá stefnu að fylgja ekki Bandaríkjunum að öllu leyti og talaði fyrir að Íslendingar ættu að berjast fyrir friði og gegn öllu ofbeldi. Um sögulega afstöðu í utanríkisstefnu þjóðarinnar var að ræða. Enginn utanríkisráðherra Íslands eða annar íslenskur ráðherra hafði áður gagnrýnt Ísraela jafn harkalega. Steingrímur var skýr með að eðlilegt væri að Palestínumenn fengju yfirráð yfir Vesturbakkanum og fengju að stofna þar ríki. Átti hann síðar eftir, eða árið 1990, að eiga tvíhliða fund með leiðtoga PLO, Yasser Arafat, þá í embætti forsætisráðherra.

Síðar átti Halldór Ásgrímsson, þáverandi formaður Framsóknar, eftir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. En eftir að Halldór tók við embætti utanríkisráðherra 1995 greiddu íslensk stjórnvöld á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í fyrsta skipti atkvæði með ályktun þar sem lýst var yfir stuðningi við sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna. Halldór talaði hreint út fyrir stofnun ríkis Palestínu, svo að Palestínumenn skyldu öðlast full yfirráð yfir eigin landsvæðum, í því augnamiði að leysa átökin. Halldór tók því í raun fyrsta alvöru skrefið að viðurkenningu Íslands á ríki Palestínumanna sem varð loks raunin árið 2011.

Mér þykir rétt að halda þessum staðreyndum til haga. Forystumenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því að hitta og hlusta á forystumenn Palestínu. Verk og afstaða Framsóknar hafa verið heilladrjúg skref til að draga fram skýr sjónarmið Íslands. Þingflokkurinn hefur síðar áréttað afstöðu sína með yfirlýsingu frá 2021, þar sem árásir ísraelska hersins á Palestínumenn á Gaza ströndinni eru harðlega fordæmd. Þar sem fórnarlömbin eru óbreyttir borgarar, konur og börn. Glæpur gegn mannúð er aldrei réttlætanlegur, það er mannúðarmál að fá að lifa og búa við öryggi, það er forsenda farsældar.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir viðburðaríkt og skemmtilegt ár í lifandi flokksstarfi Framsóknar. Það er þingflokknum, eins og áður, mjög mikilvægt að eiga í sem bestu sambandi við ykkur í grasrót flokksins. Ég fullyrði enn og aftur að fáir flokkar standa að svo öflugu baklandi eins og við í Framsókn.

Vil ég fyrir hönd þingflokksins óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, 2024!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen