Categories
Fréttir Greinar

Framsókn í 107 ár

Deila grein

16/12/2023

Framsókn í 107 ár

Það að ná mjög háum aldri er ekki sjálf­gefið, sér­stak­lega fyr­ir stjórn­mála­flokka. Í dag fögn­um við í Fram­sókn því að 107 ár eru liðin frá stofn­un flokks­ins, en flokk­ur­inn er eini stjórn­mála­flokk­ur­inn sem hef­ur fylgt ís­lensku þjóðinni sam­fleytt í meira en heila öld – og vel það. Þessi vel rúm­lega ald­ar­langa saga Fram­sókn­ar er sam­tvinnuð fram­förum á Íslandi. Heim­ur­inn hef­ur gengið í gegn­um mikl­ar breyt­ing­ar frá stofn­un flokks­ins fyr­ir 107 árum. Þannig hef­ur staða Íslands um­turn­ast til hins betra en á tíma­bil­inu fór Ísland úr því að vera fá­tækt sam­fé­lag und­ir er­lendri stjórn yfir í því að vera sjálf­stætt og full­valda ríki þar sem lífs­kjör eru með því besta sem þekk­ist á byggðu bóli.

Lengst­an part af sögu sinni hef­ur Fram­sókn verið treyst fyr­ir stjórn Íslands. Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn þess lýðræðis­sam­fé­lags sem við búum í en það að búa í frjálsu og opnu lýðræðisþjóðfé­lagi er ekki sjálf­gef­inn hlut­ur eins og fjöl­mörg dæmi í heim­in­um sanna. Það er mik­ill heiður að vera treyst fyr­ir stjórn lands­ins, en því fylg­ir einnig mik­il ábyrgð.

Grasrót flokks­ins hef­ur í gegn­um tíðina sam­an­staðið af öfl­ug­um hópi fólks sem á það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á skyn­sam­leg­ar og raun­sæj­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til að bæta sam­fé­lagið. Hið síðast­nefnda er mik­il­væg­ur eig­in­leiki í heimi þar sem við sjá­um skaut­un í stjórn­mál­um aukast til muna.

Það dylst ekki nein­um að það hef­ur gengið á ýmsu í sam­starfi nú­ver­andi stjórn­ar­flokka. Það vill hins veg­ar oft gleym­ast í umræðunni að mik­ill ár­ang­ur hef­ur náðst í fjöl­mörg­um mála­flokk­um. Þannig hafa fjöl­mörg mál fengið fram­gang í þeim mála­flokk­um sem Fram­sókn ber ábyrgð á. Ný hús­næðis­stefna og auk­in fram­lög til mála­flokks­ins munu marka leiðina fram á við. Kröft­ug upp­bygg­ing sam­göngu­innviða, hvort sem um ræðir vegi, flug­velli eða hafn­ir, hef­ur bætt bú­setu­skil­yrði og sam­keppn­is­hæfni lands­ins alls. Rót­tæk­ar um­bæt­ur í mennta­kerf­inu hafa nú þegar og munu til lengri tíma skila ávinn­ingi. Þannig er kenn­ara­nem­um strax tekið að fjölga veru­lega eft­ir fyr­ir­sjá­an­leg­an skort, sem og nem­um í verkiðn og starfs­námi og unnið er eft­ir mennta­stefnu til árs­ins 2023. Um­gjörð menn­ing­ar­mála hef­ur verið efld veru­lega með fjöl­mörg­um aðgerðum. Rót­tæk­ar breyt­ing­ar hafa verið gerðar á mál­efn­um barna sem auka lífs­gæði þeirra og góður ár­ang­ur hef­ur náðst í að efla heil­brigðis­kerfið, til að mynda með sam­vinnu hins op­in­bera og einka­geir­ans með samn­ing­um við sér­greina­lækna sem aukið hafa aðgengi sjúk­linga að heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag svo örfá dæmi séu tek­in.

Það er gam­an og gef­andi að taka þátt í stjórn­mál­um og vinna fyr­ir landið sitt á þeim vett­vangi. Hvort sem er í sveit­ar­stjórn­um eða í lands­mál­un­um mun flokk­ur­inn halda áfram að vinna að því að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær, með vinnu­semi og sam­vinnu­hug­sjón­ina að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2023.