Categories
Fréttir

„Við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur“

Deila grein

08/02/2017

„Við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur“

elsa_vef_500x500„Hæstv. forseti. Ég kem hér til að eiga samtal við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um margumrætt áfengisfrumvarp. Frá því að frumvarpið var lagt fram hefur m.a. landlæknir stigið fram og sagt, með leyfi forseta:
„Mitt álit og álit embættisins er alfarið á móti. Við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur.“
Einnig segir hann að eðlilegt sé að þeir sem vinna að því að stuðla að bættri heilsu landsmanna leggist á móti þessu frumvarpi. Allar rannsóknir sem liggja fyrir bendi til að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu. Hann tekur jafnframt fram að hann sé sérstaklega að tala um viðkvæma hópa líkt og ungt fólk og þá sem þola ekki áfengi og þar af leiðandi aukið tjón fyrir heilsu fólks og aukinn kostnað fyrir þjóðfélagið.
Þegar við skoðum síðan umsagnir um umrætt mál frá fyrri kjörtímabilum þá varar fjöldi fagaðila úr heilbrigðis- og félagsvísindum við samþykkt frumvarpsins en þeir sem mæla með því koma úr verslun og þjónustu.
Virðulegur forseti. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir meðal annars:
„Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna.“
Þar segir jafnframt:
„Við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan íbúa. Dregið skal til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.“
En nú spyr ég: Hvernig geta þessir ólíku þættir farið saman, þ.e. að bæta lýðheilsu en auka um leið aðgengi að áfengi? Þar sem ég veit að bæði ég og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson höfum báðar áhuga á aukinni lýðheilsu og heilbrigði landsmanna, spyr ég hana: Ætlar hún að samþykkja umrætt frumvarp eða er hún sammála okkur sem erum á móti og hlustum á orð fagfólks í heilbrigðis- og félagsvísindum?“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017: