Categories
Fréttir

„Við sættum okkur ekki við ofbeldi“

Deila grein

12/10/2022

„Við sættum okkur ekki við ofbeldi“

Elsa Lára Arnardóttir, varaþingmaður, fór yfir í störfum þingsins áhugaverðan fyrirlestur hjá Félagi háskólakvenna sem bar yfirskriftina, „Við sættum okkur ekki við ofbeldi“. Fyrirlesturinn var byggður á meistararitgerð Soffíu Ámundadóttir og samtals rannsókn hennar á meðal skólastjórnenda í grunnskólum Reykjavíkur. „Rannsóknin varðar málefni sem hefur verið tabú að ræða en það er mikilvægt að við opnum á umræðu um þetta mikilvæga mál, barnanna okkar vegna,“ sagði Elsa Lára.

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skólastjórnendur upplifa aukningu ofbeldis meðal barna og alvarlegri birtingarmyndir nú heldur en áður. Um leið upplifa skólastjórnendur líka úrræðaleysi. Börnin sem talað er um hér og beita ofbeldi eru mörg hver að berjast við vanlíðan, kvíða, þunglyndi eða slaka félagsfærni.“

Rannsóknin sýnir fram á að mikilvægt sé að hlúa vel að námi og velferð barna í skólasamfélaginu.

„Starfsmenn skólasamfélagsins bera mikla ábyrgð á að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og hjálpa þeim að þroskast við öruggar aðstæður. Það sama gildir vissulega um samfélagið í heild sinni, þ.e. sveitarfélögin, ríkisvaldið og auðvitað foreldra og forráðamenn.“

„Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að skólinn er rekinn af sveitarfélögum en þetta er samfélagslegt verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég fagna því að farsældarlögin og menntastefnan hafi verið samþykkt hér á Alþingi og þakka fyrir framgang þeirra verkefna. Það er verkefni sem kemur okkur í rétta átt en við verðum að ganga lengra. Ríkisvaldið, sveitarfélögin og hlutaðeigandi aðilar verða að taka höndum saman, koma saman og eiga samtal um það hvernig eigi að koma til móts við börn með sértækan vanda og skapa samræmda verkferla og úrræði um það hvernig við eigum að aðstoða börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra sem eru í flókinni stöðu og koma jafnframt með úrræði sem styðja við starfsmenn skólakerfisins,“ sagði Elsa Lára að lokum.

Ræða Elsu Láru á Alþingi:

„Virðulegur forseti.

Í hádeginu fór ég á áhugaverðan fyrirlestur hjá Félagi háskólakvenna sem bar yfirskriftina: Við sættum okkur ekki við ofbeldi. Fyrirlesturinn var byggður á meistararitgerð Soffíu Ámundadóttir og var rannsókn sem var gerð meðal skólastjórnenda í grunnskólum Reykjavíkur. Rannsóknin varðar málefni sem hefur verið tabú að ræða en það er mikilvægt að við opnum á umræðu um þetta mikilvæga mál, barnanna okkar vegna. Rannsóknin sem ég tala um hér er byggð upp á samtölum við skólastjórnendur í Reykjavík. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skólastjórnendur upplifa aukningu ofbeldis meðal barna og alvarlegri birtingarmyndir nú heldur en áður. Um leið upplifa skólastjórnendur líka úrræðaleysi. Börnin sem talað er um hér og beita ofbeldi eru mörg hver að berjast við vanlíðan, kvíða, þunglyndi eða slaka félagsfærni. Í rannsókninni kemur fram að mikilvægt sé að skólasamfélagið hlúi vel að námi og velferð barna. Starfsmenn skólasamfélagsins bera mikla ábyrgð á að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og hjálpa þeim að þroskast við öruggar aðstæður. Það sama gildir vissulega um samfélagið í heild sinni, þ.e. sveitarfélögin, ríkisvaldið og auðvitað foreldra og forráðamenn.

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að skólinn er rekinn af sveitarfélögum en þetta er samfélagslegt verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég fagna því að farsældarlögin og menntastefnan hafi verið samþykkt hér á Alþingi og þakka fyrir framgang þeirra verkefna. Það er verkefni sem kemur okkur í rétta átt en við verðum að ganga lengra. Ríkisvaldið, sveitarfélögin og hlutaðeigandi aðilar verða að taka höndum saman, koma saman og eiga samtal um það hvernig eigi að koma (Forseti hringir.) til móts við börn með sértækan vanda og skapa samræmda verkferla og úrræði um það hvernig við eigum að aðstoða börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra (Forseti hringir.) sem eru í flókinni stöðu og koma jafnframt með úrræði sem styðja við starfsmenn skólakerfisins.“